Háskóli Íslands

Aukin tengsl við danska vísindamenn

Anna Helga Jónsdóttir, aðjúnkt í tölfræði við Raunvísindadeild  Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Sjóði Selmu og Kays Langvads/Selma og Kay Langvads Legat til að efla samskipti og rannsóknarsamstarf Háskóla Íslands við danskar vísindastofnanir og háskóla. Stjórn sjóðsins afhenti styrkinn 29. júní sl. í Háskóla Íslands.

Styrkurinn hljóðar upp á 75 þúsund danskar krónur sem svarar til tæplega 1,5 milljóna íslenskra króna.
Anna Helga lærði og starfaði um árabil við Danmarks Tekniske Universitet (DTU). Í rannsóknum sínum hefur hún unnið að þróun á opnu vefkennslukerfi í stærðfræði og tölfræði. Kennslukerfið er opið öllum og aðgengilegt á http://tutor-web.net.

Á komandi misserum mun Anna Helga vinna að áframhaldandi þróun á kennslukerfinu ásamt Gunnari Stefánssyni, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, og vísindamönnum við DTU. Rannsóknahóparnir tveir munu meðal annars vinna að því að betrumbæta algrím sem notað er í kerfinu til að úthluta æfingum til nemenda sem henta þeim sem best á hverjum tímapunkti. Auk þess að vinna að áframhaldandi þróun kerfisins munu rannsóknarhóparnir tveir deila með sér og samræma kennsluefni sem notað er í háskólunum tveimur.   

Anna Helga lauk BS-prófi í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands árið 2003 og meistaraprófi í hagnýttri stærðfræði frá Danmarks Tekniske Universitet árið 2005. Að loknu meistaraprófi starfaði hún við rannsóknir og kennslu við DTU fram til ársins 2010 þegar hún hóf doktorsnám við Háskóla Íslands. Hún varði doktorsritgerð sína, Development and testing of an open learning environment to enhance statistics and mathematics education, í apríl síðastliðnum. Samhliða doktorsnáminu hefur Anna Helga kennt tölfræði við Háskóla Íslands ásamt því að vinna í hinum ýmsu kennsluþróunarverkefnum fyrir skólann.

Anna Helga hefur, ásamt Gunnari Stefánssyni, birt allnokkrar vísindagreinar um kennslukerfið tutor-web í erlendum ritrýndum fræðiritum ásamt því að hafa kynnt kerfið á fjölmörgum ráðstefnum víðs vegar um heiminn.  

Sjóðurinn Selma og Kay Langvads Legat til udvikling af den kulturelle forbindelse mellem Island og Danmark var stofnaður með peningagjöf hjónanna Selmu, fæddrar Guðjohnsen, og Kays Langvads, verkfræðings við Háskóla Íslands, árið 1964. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur.

Í stjórn sjóðsins sitja Kjartan Langvad, barnabarn Selmu og Kays Langvads, Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is