Háskóli Íslands

Bent Scheving afhendir Styrktarsjóðum Háskóla Íslands veglega gjöf

60 milljón króna framlag einstaklings til Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
Styrkjum til meistara- og doktorsnáms fjölgar.

Bent Scheving Thorsteinsson hefur veitt Háskóla Íslands veglega peningagjöf til Styrktarsjóða skólans að upphæð kr. 13 milljónir. Kristín Ingólfsdóttir rektor tók við gjöfinni við hátíðlega athöfn þriðjudaginn 27. nóvember 2007. Móttakan fór fram á skrifstofu rektors, Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Bent Scheving Thorsteinsson hefur verið velgjörðarmaður Háskóla Íslands frá síðustu aldamótum og með framlagi sínu að þessu sinni hefur hann fært Háskólanum 60 milljónir króna á nærri sjö árum. Féð hefur runnið til stofnunar þriggja sjóða, sem heyra undir Styrktarsjóði Háskólans. Sjóðirnir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis stofnaður árið 2000, Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala stofnaður árið 2001 og Styrktarsjóður Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar stofnaður árið 2001. Alls hafa sjóðirnir veitt 15 styrki til vísindarannsókna.

Með gjöf Bents er eigið fé hvers sjóðs fyrir sig nú orðið 20 milljónir kr. Fjárhæðir sjóðanna hafa verið nýttar í þágu rannsókna við Háskóla Íslands og með viðbótarframlaginu aukast enn frekar möguleikar meistara- og doktorsnema við Háskólann til námsstyrkja.

Um sjóðina
Markmið Verðlaunasjóðs Óskars Þórðarsonar læknis er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga. Veitt hafa verið verðlaun frá stofnun sjóðsins til vísindamanna við Læknadeild Háskóla Íslands og Landspítala –háskólasjúkrahús, sem hafa haft verulegt gildi fyrir greiningar og meðferð á börnum. Frá stofnun sjóðsins hafa verið veittar þrjár viðurkenningar til sérfræðinga í barnalækningum á sviði nýrnarannsókna, ofnæmis- og ónæmisfræða og lungnarannsókna.

Markmið Verðlaunasjóðs Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. Veittar hafa verið níu viðurkenningar frá stofnun sjóðsins til doktorsnema í lyfjafræði sem hefur gert þeim kleift að stunda rannsóknir sínar jafnt hérlendis sem erlendis ásamt því að gefa þær út.

Markmið Styrktarsjóðs Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. Veittir hafa verið þrír styrkir til rannsókna á sviði eineltis. Styrkirnir voru veittir árið 2003 til samanburðarrannsókna á eðli og orsökum eineltis í grunnskólum á Íslandi og Noregi. Þá var veittur styrkur til rannsókna sem var ætlað að varpa ljósi á viðhorf kennara til eineltis og hversu vel þeir töldu sig vera í stakk búna að bregðast við einelti í umhverfi sínu. Rannsókn þessi er talin marka ákveðinn upphafspunkt á rannsóknum á sviði eineltis í framhaldsskólum. Einnig var veittur styrkur til rannsóknarinnar „Einelti meðal íslenskra unglinga: Umhverfi og aðstæður“.

Ómetanlegt tækifæri fyrir unga vísindamenn
Sjóðir á borð við þessa sem hér hefur verið greint frá eru mjög mikilvægir og skipta miklu máli fyrir einstaklinga og unga vísindamenn sem eru að byrja að hasla sér völl á sviði vísinda. Þeir eru ein af grunnforsendum þess að ungir vísindamenn geti sótt í stóra erlenda samkeppnissjóði um styrki til rannsóknarverkefna. Nauðsynlegt er að geta sýnt fram á að minni rannsóknir hafa verið stundaðar, mótframlag og fjárstuðning ásamt birtingu niðurstaðna rannsókna í ritrýndum vísindatímaritum, þegar sótt er um styrki í alþjóðlega samkeppnisjóði.

Verðlauna- og styrkhafar Scheving-sjóðanna

Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis: Árið 2007 fékk Viðar Eðvarðsson sérfræðingur í nýrnarannsóknum barna verðlaun fyrir rannsóknir sínar, Sigurður Kristjánsson sérfræðingur í ofnæmis- og ónæmisfræði barna fékk viðurkenningu fyrir rannsóknir árið 2003 og Hákon Hákonarson lungnasérfræðingur barna fékk viðurkenningu sjóðsins árið 2002.

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar: Árið 2007 fengu Ögmundur Viðar Rúnarsson og Elsa Steinunn Halldórsdóttir, doktorsnemar við Háskóla Íslands, viðurkenningar fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði. Árið 2005 voru verðlaunahafarnir einnig doktorsnemar í lyfjafræði við Háskóla Íslands, þau Hákon Hrafn Sigurðsson, Sesselja Sigurborg Ómarsdóttir og Þórunn Ósk Þorgeirsdóttir en þetta var annar styrkurinn sem þau hlutu úr sjóðum til rannsókna sinna í lyfjafræði en fyrsti styrkurinn var veittur árið 2002. Þá hlaut jafnframt styrk úr sjóðunum Þorsteinn Þorsteinsson, doktorsnemi í lyfjafræði.

Styrktarsjóður Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar: Árið 2003 voru veittir þrír styrkir úr sjóðnum. Styrkhafar voru Vanda Sigurgeirsdóttir, þá meistaranemi við Kennaraháskóla Íslands og nú lektor við skólann. Rannsóknum hennar var ætlað að varpa ljósi á viðhorf kennara til eineltis. Elín Einarsdóttir, þá starfandi námsráðgjafi við Digranesskóla, hlaut styrk til samanburðarrannsókna á eðli og orsökum eineltis í grunnskólum á Íslandi og Noregi og Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur hlaut styrk til rannsóknarinnar „Einelti meðal íslenskra unglinga: Umhverfi og aðstæður“.

Margir af sjóðanna sem stofnaðir hafa verið við Háskóla Íslands eru til komnir vegna velvildar einstaklinga í garð skólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Ljósmynd: Bent Scheving Thorsteinsson.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is