Háskóli Íslands

Doktorsnemar í lyfjafræði hljóta styrk

Tveir doktorsnemar í lyfjafræði við Háskóla Íslands, Indverjarnir Varsha A. Kale og Vivek S. Gaware, fengu styrk úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala í gær, mánudaginn 4. júní. Rannsóknir þeirra hafa þegar leitt til nýrrar þekkingar í lyfjafræði.

Þetta er í sjöunda sinn sem viðurkenningar eru veittar úr sjóðnum til doktorsnema í lyfjafræði við Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 700.000 krónur og hlýtur hvor styrkhafi 350.000 krónur.

Rannsóknaverkefni Vörshu A. Kale  miðar að því að einangra brjósksykrur úr íslenskum sæbjúgum og ákvarða sameindabyggingu þeirra. Einnig hefur hún ræktað sjávarbakteríur sem framleiða sykrukljúfandi lífhvata.  Varsha hefur nú þegar einangrað þrjár mismunandi gerðir slíkra sykra og sýnt fram á ónæmisstýrandi virkni. Hagnýting verkefnisins felst í framleiðslu nýrra lífvirkra sykra og  lífhvata. Verkefnið er unnið í samstarfi við Matís.  Varsha er fædd á Indlandi árið 1985 og lauk meistaraprófi í lyfjaefnafræði árið 2004 frá S.R.T.M. háskólanum í Nanded á Indlandi. Hún hóf doktorsnám í lyfjavísindum við  Háskóla Íslands árið 2009 og aðalleiðbeinandi hennar er Sesselja S. Ómarsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild, en meðleiðbeinandi Guðmundur Óli Hreggviðsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild og fagstjóri hjá Matís.

Í doktorsverkefni sínu þróar Vivek S. Gaware sérstök nanóefni sem hægt er að örva með ljósi og eyða þannig krabbameinsæxlum. Verkefnið er unnið í samstarf við vísindamenn við Radium hospital í Ósló og fyrirtækið PCI Biotech.  Vivek hefur nú þegar tekist að  smíða og skilgreina vel á fimmta tug nýrra efna í þessu verkefni. Niðurstöður prófana í Noregi hafa gefið góða raun og benda til þess að efnin séu mjög virk gegn krabbameini. Vivek er einnig fæddur á Indlandi, árið 1981, og hann lauk meistaraprófi  í lífrænni efnafræði frá Háskólanum í Pune í heimalandi sínu árið 2004. Vivek hóf doktorsnám í lyfjavísindum við Háskóla Íslands árið 2008 og aðalleiðbeinandi hans er Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild.

Um Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala
Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala var stofnaður árið 2001. Markmið sjóðsins er að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði. Það var Bent Scheving Thorsteinsson sem stofnaði sjóðinn til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson.

Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar er einn þriggja sjóða sem Bent hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti. Samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með fjárframlagi til sjóðanna þriggja.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is