Styrkjaúthlutanir á aldarafmæli Háskóla Íslands í fyrra voru einkar veglegar en þá voru veittir samtals 365 styrkir úr sjóðum Styrktarsjóða Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í skýrslu stjórnar Styrktarsjóðanna fyrir aldarafmælisárið.
Í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands eru rúmlega sextíu sjóðir og gjafir sem borist hafa háskólanum allt frá stofnun hans. Hluti sjóðanna starfar eftir staðfestri skipulagsskrá þar sem kveðið er á um hvernig styrkjum skuli úthlutað til ýmissa verkefna nemenda, kennara eða vísindamanna. Fjárreiður Styrktarsjóðanna eru aðskildar frá fjárreiðum skólans.
Töluvert var um úthlutanir úr styrktarsjóðum Háskóla Íslands á árinu 2011 og í tilefni aldarafmælis skólans voru margar úthlutananna einkar veglegar. Þannig var 100 milljónum króna úthlutað til 27 doktorsnema af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands. Þá voru 20 milljónir króna veittar úr Menningar- og framfarasjóði Ludvigs Storr sem fagnaði 30 ára afmæli í fyrra. Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum á sviði jarðefnafræða, byggingariðnaðar og skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms.
Alls voru veittir 365 styrkir úr sjóðum Styrktarsjóða Háskóla Íslands í fyrra sem fyrr segir, eða að jafnaði einn styrkur á dag allt árið um kring. 289 styrkjanna komu úr Sáttmálasjóði, sem stofnaður var árið 1918 og veitir ferðastyrki til fastra kennara, vísindamanna og fræðimanna, og 76 styrkir úr öðrum sjóðum.
Við þetta má bæta að á síðasta ári og það sem af er þessu ári hefur upphæð styrkja úr Styrktarsjóðum Háskóla Íslands numið rúmlega 300 milljónum króna. Þar af hafa um 270 milljónir runnið til styrktar rannsóknum í doktorsnámi sem hefur vaxið mjög undanfarin ár við Háskóla Íslands, ekki síst í kjölfar stefnumörkunar háskólans árið 2006, en þar var rík áhersla lögð á að efla rannsóknir og doktorsnám.