Þann 22. september 2008 var úthlutað í fyrsta skipti úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur.
Doktorsnemarnir Eydís K. Sveinbjörnsdóttir, sviðsstjóri hjúkrunar á geðsviði Landsspítala – háskólasjúkrahúss (LSH), og Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor og forstöðumaður fræðasviðs í geðhjúkrun við Háskóla Íslands (HÍ), hlutu styrk úr sjóðnum að upphæð kr. 375.000 hvor.
Ingibjörg R. Magnúsdóttir gaf sjóðnum upphæðina, 750 þúsund krónur, í tilefni af 85 ára afmæli sínu í sumar og fór hún þess á leit að þessari fjárhæð yrði úthlutað sem fyrst. Fyrir utan þessa eyrnamerktu upphæð gaf Ingibjörg enn fremur eina milljón króna í sjóðinn við sama tækifæri.
Rannsóknir Eydísar og Jóhönnu í doktorsnáminu eru báðar í geðhjúkun. Rannsóknarverkefni Eydísar er á sviði fjölskylduhjúkrunar og er markmið með því er að þróa og meta stuðning við fjölskyldur sem hjúkrunarfræðingar veita á bráðageðdeildum á geðsviði LSH. Verkefni Jóhönnu er að kanna sálræna líðan kvenstúdenta við HÍ, annars vegar með því að kanna depurðar- og kvíðaeinkenni og bera saman við aðra samfélagshópa og hins vegar að þróa og forprófa forvarnarnámskeið til að efla geðheilbrigði kvenstúdenta og koma í veg fyrir kvíða- og þunglyndiseinkenni.