Háskóli Íslands

Fjórir meistaranemar og einn vísindamaður hljóta styrki

Á ársfundi Verkfræðistofnunar sem haldinn verður í dag í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, kl. 15, verður úthlutað úr Styrktarsjóðum Háskóla Íslands. Veitt verða verðlaun að upphæð kr. 200.000 úr Minningarsjóði Jóns Þorlákssonar verkfræðings til fjögurra bestu meistaranema í verkfræði. Þeir eru Jónína Lilja Pálsdóttir, Fjóla Jóhannesdóttir, Jóhannes Loftsson og Hörður Jóhannsson en verðlaunin veitir Sigurður Brynjólfsson, forseti verkfræðideildar Háskóla Íslands.
Þá verður veitt viðurkenning að upphæð kr. 150.000 úr Starfssjóði Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi rannsóknarframlag. Viðurkenninguna að þessu sinni hlýtur Jón Atli Benediktsson prófessor en Magnús Þór Jónsson, prófessor og formaður VHÍ, veitir viðurkenninguna.

Minningarsjóður Jóns Þorlákssonar verkfræðings var stofnaður af ekkju Jóns, frú Björgu Claessen Þorláksson, og kjördætrum þeirra. Tilgangur sjóðsins er að styrkja stúdenta til náms við verkfræðideild Háskóla Íslands eða til framhaldsnáms við annan háskóla.

Starfssjóður Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands var stofnaður árið 1987 í tilefni af 65 ára afmæli Elli- og hjúkrunarheimilinu Grundar til minningar um verkfræðingana Knud Ziemsen borgarstjóra og Jón Þorláksson borgarstjóra. Tilgangur sjóðsins er að verðlauna verkfræðinga fyrir áhugaverð og vel unnin rannsóknarstörf er stuðlað hafa að framgangi verkfræðirannsókna við Háskóla Íslands.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is