Háskóli Íslands

Fjórir styrkir til rannsókna í jarð- og lífvísindum

Fjórir styrkir hafar verið veittir úr Eggertssjóði við Háskóla Íslands sem nýtast munu til tækjakaupa og rannsókna innan jöklafræði, krabbameinsfræði, vistfræði og landfræði. Styrkirnir nema samtals 4,5 milljónum króna og voru afhentir við athöfn í Hátíðasal HÍ.

Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á þeim sviðum.

Eyjólfur Magnússon vísindamaður og Finnur Pálsson verkfræðingur fengu styrk f.h. Jöklahóps Jarðvísindastofnunar til kaupa á móttökubúnaði fyrir íssjá.

Íssjá sem nýtist til kortlagningar á botni þíðjökla var hönnuð og smíðuð við Raunvísindastofnun Háskólans árið 1975. Sú vinna var að mestu leyti kostuð af Eggerti V. Briem sem var mikill áhugamaður um jöklarannsóknir. Allar götur síðan hafa íssjármælingar gegnt lykilhlutverki í botnkortlagningu íslenskra jökla. Þótt megindrættir landslags á botni stærstu jökla landsins séu nú þekktir eru enn óunnin verk fyrir íssjá, m.a. að kortleggja botn sumra smærri jökla, auk þess sem áhugavert er að kanna nánar ýmis svæði á stærri jöklunum með þéttari mælilínum og meiri nákvæmni. Þessi verkefni eru mikilvæg vegna almannahagsmuna, þ. á m. vegna mats á hættu vegna jökulhlaupa í tengslum við eldgos undir jökli, stöðugleika árfarvega í tengslum við mannvirkjagerð og mats á afrennsli jökuláa til raforkuframleiðslu. Upphaflegi íssjársendirinn sem nú er 50 ára er enn í notkun og virkar vel en öðru máli gegnir um móttökubúnaðinn. 

Bylgja Hilmarsdóttir, lektor við Læknadeild, hlaut styrk til rannsóknarinnar  „Ræktun organoida úr vefjasýnum frá eggjastokkum og eggjastokkakrabbameini“.

Arfgengar meinvaldandi stökkbreytingar í genum sem tengjast DNA-viðgerðum, s.s. BRCA1, BRCA2 og BRIP1, geta aukið áhættu á myndun krabbameina. Á Íslandi eru þekktar nokkrar slíkar landnemastökkbreytingar. Til að rannsaka áhrif þessara breytinga á myndun og framvindu krabbameina er þörf á frekari rannsóknarlíkönum sem endurspegla líffræði krabbameina vel. Rannsóknir hafa sýnt að frumuræktunarlíkön sem byggjast á því að rækta æxlisvef beint frá sjúklingum sem örlíffæri/öræxli (e. organoids/tumoroids) eru áhrifarík aðferð til að rækta ferskan vef í lengri tíma á rannsóknastofu. Markmið þessa verkefnis er að rækta frumur úr vefjasýnum úr fyrirbyggjandi aðgerðum á eggjastokkum og úr eggjastokkakrabbameinsagerðum í þrívíðum öræxlaræktum. Lögð verður áhersla á að rækta frumur sem bera stökkbreytingar í genum sem tengjast DNA-viðgerðarferlum. Frumumódelin verða síðan notuð til að rannsaka áhrif breytinganna á framþróun krabbameina, viðgerð tvíþátta DNA-skemmda, lyfjanæmi og lyfjaþol sem myndast í meðferð við eggjastokkakrabbameinum.

Judith Trunschke, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut styrk til kaupa á litrófsmæli vegna rannsókna á vist- og þróunarfræðilegu hlutverki lita hjá blómplöntum. 

Litur blóma gegnir lykilhlutverki í samskiptum plantna og frjóbera þeirra og hefur mótast af þróunarferlum vegna náttúrulegs vals sem tengist frjóberunum. Mikilvægi þessarar aðlögunar og þeirra ferla sem viðhalda útbreiddum litabreytileika innan tegunda, bæði ósamfelldum og samfelldum, er hins vegar lítt þekktur. Litrófsmælirinn mun gagnast til að fá nákvæmar og tölulegar mælingar á lit blóma og hvernig sá breytileiki er innan og á milli plöntustofna.

Tækið mun einnig gagnast í frekari rannsóknum á þróunarbreytingum og vistfræðilegu mikilvægi blómalita hjá bæði orkídeum og háfjalla- eða norðurhjaraplöntum.   

Scott J. Riddell, aðjúnkt við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut styrk til tækjakaupa sem nýtast mun í rannsóknarverkefninu „Birkiskógar Íslands í fortíð og framtíð“.

Verkefnið miðar að því að greina sögu birkiskóga á síðari hluta níundu aldar, fyrir og eftir landnám, með athugun á þremur skóglendum á Íslandi. Rannsóknin er þverfagleg og byggist á sérfræðiþekkingu á sviði vistfræði, fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði. Borkjarnar úr botnsetum stöðuvatna verða nýttir til að greina setlögin með tilliti til ástands jarðvegs, breytinga í frjókornum og í DNA. Sagnfræðilegar heimildir og fornleifar verða nýttar til að greina nýtingu skóga, t.d. sem byggingarefnis og til kolagerðar, en vistfræðilegar athuganir munu varpa ljósi á núverandi stöðu skóglendis. Rannsóknin beinist því bæði að fortíðinni og stöðu mála í dag og mun gagnast sem grunnur að endurheimt birkiskóga á Íslandi. Jafnframt veitir rannsóknin innsýn í útbreiðslu birkis, tegundasamsetningu skóganna og til að greina hættur sem steðja að núverandi og fyrirhuguðum skóglendum framtíðar.

Um Eggertssjóð
Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.

Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1918. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. tengdum saumavélum. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau. 

Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið sett á fót Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgjörðamaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is