Fjórir styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði ljósmóðurfræða úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda við Háskóla Íslands. Rannsóknirnar snerta áhrif oxýtósínlyfjagjafar við barneignir, menningarhæfni ljósmæðra hér á landi, aðgengi erlendra kvenna að barneignarþjónustu og hópmeðgönguvernd fyrir verðandi foreldra sem hafa glímt við fíknivanda. Styrkhafar eru Berglind Hálfdánsdóttir, Edythe Laquindanum Mangindin, Embla Ýr Guðmundsdóttir, Valgerður Lísa Sigurðardóttir og Emma Marie Swift. Heildarupphæð styrkja nemur fjórum milljónum króna.
Berglind Hálfdánsdóttir vinnur að rannsókn um hormónið og taugaboðefnið oxýtósín, sem gegnir lykilhlutverki í barneignarferlinu. Færst hefur í vöxt á síðustu áratugum að gefa oxýtósín í lyfjaformi við framköllun fæðingar. Slík lyfjagjöf í fæðingu getur hamlað jákvæðum áhrifum oxýtósíns í líkamanum í ferlinu. Síðustu ár hafa sjónir rannsakenda að auki beinst að mögulegum neikvæðum áhrifum oxýtósínlyfja á sál-, félags- og taugafræðilegar breytur hjá móður og barni, s.s. brjóstagjöf, geðheilsu mæðra og taugaþroska barna.Skortur er á rannsóknum á efninu á alþjóðavísu þar sem stuðst væri við stór og vönduð gagnasöfn á borð við íslenska fæðingarskráningu auk þess sem engar slíkar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi. Nú stendur yfir undirbúningur að viðamikilli íslenskri rannsókn á efninu sem gæti leitt af sér alls 8-11 rannsóknarverkefni sem meistara- og doktorsnemar í ljósmóðurfræði myndu vinna. Styrkurinn mun nýtast til áframhaldandi undirbúningsvinnu og fýsileikakönnunar fyrir rannsóknina.
Berglind er dósent í ljósmóðurfræði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ. Sérsvið hennar í rannsóknum eru siðferði, skipulag og inngrip í barneignarþjónustu, þjónustuþarfir kvenna og val á þjónustu utan viðmiða. Berglind lauk doktorsprófi í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands vorið 2016.
Edythe Laquindanum Mangindin rannsakar menningarhæfni ljósmæðra í barneignarþjónustu á Íslandi. Nýlegar rannsóknir benda til þess að ákveðinn ójöfnuður sé fyrir hendi innan þjónustunnar. Líklegra er að inngrip séu notuð í fæðingum kvenna af erlendum uppruna, þær upplifa minni virðingu í samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk en íslenskar konur og minna sjálfræði í að taka ákvarðanir um barneignarþjónustu. Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að menningarhæfni ljósmæðra sé mikilvægur þáttur í að bæta þjónustu fyrir þennan jaðarhóp. Markmið rannsóknarinnar er að meta menningarhæfni ljósmæðra fyrir og eftir námskeið um efnið. Tveimur aðferðum verður blandað saman til að meta menningarhæfni ljósmæðra. Þátttakendur í námskeiðinu svara spurningalista um menningarhæfni fyrir og eftir námskeiðið en jafnframt verður notast við rýnihópaviðtöl. Vísindalegt gildi rannsóknarinnar felst í að skoða hvort hægt er að auka menningarhæfni ljósmæðra hér á landi með það að markmiði að bæta þjónustu.
Edythe er ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur sem starfar á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Hún stundar doktorsnám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur hennar eru Helga Gottfreðsdóttir, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ, og Emma Marie Swift, dósent við sömu deild. Í doktorsnefnd sitja einnig Helga Zöega, prófessor við Læknadeild HÍ, Kathrin Stoll, vísindamaður við University of British Columbia, og Franka Cadée, vísindamaður við University of Maastricht.
Embla Ýr Guðmundsdóttir vinnur að rannsókn sem ber heitið „Aðgengi kvenna af erlendum uppruna að barneignarþjónustu á Íslandi“. Tekin verða einstaklingsviðtöl við konur af fjölbreyttum uppruna á meðgöngu og er ætlunin að varpa ljósi á aðgengi og hindranir þeirra í barneignarþjónustu ásamt því að finna þá þætti sem stuðla að bættri upplifun barnshafandi kvenna af erlendum uppruna. Niðurstöðurnar verður hægt að nýta til að mæta þörfum erlendra kvenna á Íslandi við barneignir.
Embla Ýr lauk doktorsprófi í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands haustið 2023. Hún hefur starfað sem ljósmóðir á fæðingardeild Landspítala, við meðgönguvernd og sjálfstætt í heimaþjónustu. Hún hefur auk þess kennt lækna- og ljósmæðranemum við Háskóla Íslands. Embla er nýdoktor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ og sinnir auk þess ljósmæðrastörfum á Fæðingarheimili Reykjavíkur.
Rannsókn Valgerðar Lísu Sigurðardóttur og Emmu Marie Swift er þríþætt og felur í sér prófun á hópmeðgönguvernd fyrir verðandi foreldra sem glíma eða hafa glímt við fíknivanda. Hópmeðgönguvernd felur í sér að hluti skipulagðra viðtala á meðgöngu fer fram í 6-8 manna hópum. Slík viðtöl hafa verið prófuð hérlendis innan heilsugæslunnar hjá verðandi foreldrum án áhættuþátta á meðgöngu og reyndust vel. Verðandi foreldrar með sögu um fíknivanda eru viðkvæmur hópur sem gjarnan tekst á við flóknar áskoranir samhliða hefðbundnum undirbúningi fyrir fæðingu, sængurlegu og foreldrahlutverkið. Erlendis má sjá vísbendingar um að hópmeðgönguvernd sé gagnleg fyrir þann hóp en það hefur lítið verið rannsakað. Þátttakendum verður skipt tilviljanakennt í rannsóknarhóp og samanburðarhóp. Gert er ráð fyrir að báðir hópar svari spurningalista áður en hópmeðgönguverndin hefst og aftur við 34-36 vikna meðgöngu. Einnig verða tekin viðtöl við 10-15 konur/pör. Niðurstöðurnar verða nýttar til að þróa þjónustu við verðandi foreldra með sögu um fíknivanda hérlendis.
Valgerður Lísa er sérfræðiljósmóðir á kvennadeild Landspítala og lektor við námsbraut í ljósmóðurfræði við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ. Sérsvið hennar í rannsóknum og ljósmóðurstörfum tengjast geðheilsu og andlegri líðan kvenna í barneignarferlinu. Valgerður Lísa lauk doktorsnámi í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands árið 2020.
Emma Marie er dósent við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands. Emma lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í janúar 2019. Sérsvið hennar í rannsóknum og ljósmóðurstörfum er að styðja við eðlilegt barneignarferli og samfellda þjónustu. Emma starfar einnig á Fæðingarheimili Reykjavíkur sem hún stofnaði ásamt Emblu Ýr Guðmundsdóttur árið 2021.
Um sjóðinn
Minningarsjóður Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda var stofnaður við Háskóla Íslands 22. desember 2008 samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur til minningar um foreldra hennar, Björgu Magnúsdóttur ljósmóður og Magnús Jónasson bónda sem bjuggu í Túngarði á Fellsströnd í Dölum. Björg var þar umdæmisljósmóðir árabilið 1910-1951. Þetta er í sjöunda sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum en markmið hans er að styrkja ljósmæður og hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.