Háskóli Íslands

Geislaskaði á lífsameindum, með áherslu á DNA-brotum og stuttum kjarnsýruröðum

Helga Dögg Flosadóttir, Raunvísindi

Þegar háorkugeislun fer í gegnum þéttefni eins og vatn myndast rák af jónum, stakeindum og „frjálsum“ rafeindum í kjölfar geislans. Samsetning og uppbygging þessa í kjölfar geislans skilgreinir upphafsaðstæðurnar sem síðan koma af stað fjölda óháðra ferla og ferlum sem eru háðir hver öðrum. 

Ef þessi flókna atburðarás á sér stað í lífveru getur hún að lokum leitt til efnahvarfa sem valda tengjarofum í erfðarefni eða öðrum lífsnauðsynlegum efnasamböndum lífverunnar. Þó að til séu í dag nokkuð nákvæm líkön fyrir myndun geislabrautarinnar sjálfrar, vantar mikið upp á til að tengja þau líkön við efnafræðina sem fylgir á eftir og þann skaða sem geislunin veldur lífverunni.

Markmið verkefnisins er að auka skilning okkar á því hvernig sá skaði kemur til sem háorkugeislun veldur lífverum, aðgreina hlutverk stakeinda og orkulítilla rafeinda í þessu ferli og reyna að leggja grunn að heilsteyptu líkani fyrir hvarfganginn þegar háorkugeislun veldur tengjarofi í lífsameindum. 

Áhersla verður lögð á geislaskaða á erfðarefninu DNA en einnig verða gerðar tilraunir á styttri amínósýruröðum. Að auki er ætlunin að varpa skýrari mynd á áhrif geislaskammtsins og tímalengd geislunarinnar á eðli skaðans en sérstaklega er hér þörf á að auka skilning á áhrifum lágra geislaskammta yfir lengri tíma. Langtímamarkmið þessa verkefnis er að það megi nýtast til bætts verklags í meðferð geislavirkra efna og bættrar geislameðferðar til lækninga.

Leiðbeinandi: Oddur Ingólfsson, prófessor við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

Samstarfsaðilar: Garðar Mýrdal, geislalækningadeild Landspítalaháskólasjúkrahús, Snorri Þór Sigurðsson prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, Nigel Mason, prófessor við Open University, Milton Keynes í Englandi, og Eugen Illenberger, prófessor við Freie Universität Berlin í Þýskalandi.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is