Háskóli Íslands

Genatjáning og bólgusvörun í kæfisvefni og við svefnsviptingu

Erna Sif Arnardóttir, Heilbrigðisvísindi

Kæfisvefnssjúklingar þjást af endurteknum öndunartruflunum í svefni, lenda oftar en heilbrigðir í slysum og þjást oftast af sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum. Markmið verkefnisins er að rannsaka tvo hópa: 1) Einstaklinga með ómeðhöndlaðan kæfisvefn og 2) heilbrigt fólk sem haldið er vakandi lengur en í sólarhring.

Reglulega verður tekið blóð og skoðað hvað aðgreinir ómeðhöndlaðan kæfisvefn og svefnsviptingu frá heilbrigðum svefni. Með notkun örflögutækni verður hægt að skoða breytingar á starfsemi allra þekktra gena í líkamanum. Þannig fæst breið yfirsýn yfir þær breytingar sem verða í bæði kæfisvefni og við svefnsviptingu. Einnig verður sérstaklega mæld bólguboðefni og önnur boðefni í blóði sem talin eru tengjast kæfisvefni.

Rannsakað verður hvað greinir á milli einstaklinga sem þola svefnleysi vel og geta starfað vel þrátt fyrir að missa svefn í heila nótt og þeirra sem þola svefnleysi illa og gera fleiri mistök í athyglisprófi þegar þeir eru svefnvana.

Vonast er til að skilja betur þær líkamlegu breytingar sem verða við kæfisvefn og svefnsviptingu, að finna breytingar í blóði sem geta spáð fyrir um kæfisvefn og svefnleysi og skilja af hverju sumir þola vel að missa svefn og sofa illa en aðrir vel. Þessi þekking hjálpar okkur að skilja betur hlutverk svefns og erfðafræðilegan mun einstaklinga.

Á grunni slíkrar þekkingar má væntanlega veita einstaklingsbundna ráðgjöf um meðferð t.d. við kæfisvefni og jafnvel meta fyrirfram líkur þess að einstaklingur „þoli“ svefntruflun.

Leiðbeinandi: Þórarinn Gíslason, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á lungnadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, og Allan I. Pack, prófessor við University of Pennsylvania í Bandaríkjunum og gestaprófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

Samstarfsaðilar: Svefneining Lungnadeildar, Landspítala, The Sleep Center and the Clinical and Translational Research Center (CTRC), University of Pennsylvania, Bandaríkjunum og Merck and Co., Inc. í Pennsylvaníu, Bandaríkjunum.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is