
Bergrún Arna Óladóttir, Raunvísindi
Í verkefninu verður gossaga, goshegðun og þróun kviku í fjórum eldstöðvakerfum (Grímsvötn, Veiðivötn, Kverkfjöll og Öræfajökull) rakin með rannsóknum á gjóskulögum. Eldstöðvakerfin liggja að hluta undir Vatnajökli og basísk þeytigos eru því ríkjandi á þessu svæði. Gjóskulög eru einu aðgengilegu menjar þessa gosa sem verða undir jöklinum.
Gjóskulög í ísnum hafa aukið mjög við þekkingu á gossögu eldstöðvanna undir jöklinum en elsti ís í Vatnajökli er ekki nema um 800-1000 ára og því geymir jökullinn einungis upplýsingar um viðburði frá sögulegum tíma. Til að öðlast þekkingu á eldri atburðum þarf að leita í jarðvegssnið og stöðuvötn. Jarðvegssniðin geyma upplýsingar frá síðustu 10.000 árum u.þ.b. en litlar líkur eru á að finna þar eldri gjóskulög.
Markmið verkefnisins er tvíþætt: 1) Að rekja gossögu eldstöðvakerfanna undir Vatnajökli frá ísaldarlokum eins og hún er skráð af gjóskulögum í jarðvegi umhverfis Vatnajökul. Áhersla er lögð á gostíðni eldstöðvakerfanna með samanburði við þekkta gostíðni á sögulegum tíma, lotur í eldvirkni, stærð gosa og áhrif þeirra. 2) Að kanna þróun kvikukerfa frá lokum ísaldar. Undir það markmið falla lögun kvikugeyma, dvalartími kviku í kvikuhólfum, tengsl kvikuþróunar við lotur í eldvirkni og myndunaraðstæður kviku í möttli jarðar.
Verkefnið mun auka þekkingu á eldvirkni eldstöðva undir Vatnajökli og vonandi veita nýja innsýn í hegðun kvikuhólfa almennt og líftíma þeirra með samtengingu gjóskulagafræði og jarðefnafræði. Með verkefninu eykst þekking á eldvirkni Íslands og jafnframt er lagður grunnur að gagnabanka um basísk gjóskulög og nákvæmu gjóskutímatali fyrir Austur og Suð-Austurland sem nýtast mun í umhverfisrannsóknum.
Leiðbeinendur:
Guðrún Larsen, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, og Olgeir Sigmarsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
Samstarfsaðili:
Vísindastofnun Frakklands, Université Blaise Pascal í Clermont-Ferrand, Frakklandi.