Háskóli Íslands

Háskólinn er og þarf að vera í fararbroddi

Það vakti mikla athygli sumarið 2007 þegar hjúkrunarfræðingurinn, fyrrverandi röntgenkonan og íþróttakennarinn Ingibjörg R. Magnúsdóttir átti hvatann að stofnun sérstaks sjóðs til að styrkja rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands. 
 
Áður en Ingibjörg settist í helgan stein hafði hún verið námsbrautarstjóri við Hjúkrunarfræðideild háskólans og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur enda alla tíð hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við háskólann árið 1973. Hún tók þannig drjúgan þátt í því að kennsla hófst í hjúkrunarfræði á háskólastigi á Íslandi en segir að fyrstu árin í slíkri kennslu hafi einkennst af brautryðjendastarfi.  
 
„Háskóli Íslands var einn af fyrstu háskólunum í Evrópu til að bjóða upp á nám í hjúkrunarfræði. Starf hjúkrunarfræðinga kallaði þá á meiri þekkingu enda voru framfarir miklar í lækningum og heilsugæslu. Það krafðist meiri þekkingar þeirra sem unnu með læknum. Fleira mætti nefna, t.d. lögðu fleiri karlar stund á hjúkrunarfræði og það er vel. Það er gríðarlega þýðingarmikið fyrir Ísland að eiga vel menntaða hjúkrunarfræðinga og einnig fyrir hjúkrunarfræðingana sjálfa. Það er þá auðvelt fyrir þá að fá vinnu erlendis eða leggja stund á framhaldsnám þar. Reynsla og þekking að utan nýtist okkur vel hér,“ segir Ingibjörg.  
 
Hún bætir því við að hana hafi alltaf langað til að rétta hjúkrunarfræðikennurum hjálparhönd til að bæta við menntun sína og til að auka rannsóknarvirkni. „Ég lagði fram eina milljón króna ef einhver gæti notfært sér það til frekara náms. Kennararnir í hjúkrunarfræðinni voru fljótir að sjá að best væri að stofna sjóð og reyna að fá fleiri til að leggja málinu lið og á stuttum tíma voru komnar fimm milljónir króna til sjóðsmyndunar,“ segir Ingibjörg. 
 
Sjóðurinn sjálfur var stofnaður hinn 29. júní 2007. Ásamt Ingibjörgu lögðu Glitnir, Ljósmæðrafélag Íslands, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytið og ýmsir einstaklingar til stofnfé. Ingibjörg hefur svo sjálf lagt fram viðbótarframlög við stofnfé sjóðsins. Árið 2008 gaf svo Sigurður Helgason eina milljón króna sem lagðist við stofnfé sjóðsins.
 
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur hefur styrkt fjölda verkefna frá stofnun en sex sinnum hefur verið veitt úr sjóðnum til stuðnings rannsóknum. „Rannsóknir á vegum Háskóla Íslands tel ég vera afar þýðingarmiklar. Framfarir eru miklar á flestum sviðum, þjóðfélagsbreytingar örar og þörfin mikil og krefjandi að fylgjast með og taka þátt í þeim. Hafa möguleika á að gefa eins og að þiggja og taka við. Ég tel að við Íslendingar þurfum að viðurkenna það og leggja þeim lið er að rannsóknum vinna, ekki síst í heilbrigðismálum. Háskóli Íslands er og þarf að vera í fararbroddi.“
 
Við stofnun sjóðsins var ákveðið að kalla hann Rannsóknarsjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur í hjúkrunarfræði.  „Það var mikill heiður fyrir mig og viss áskorun um að halda áfram að styrkja sjóðinn, það hef ég gert og nokkrir vinir mínir líka,“ segir Ingibjörg og brosir.
 
Ingibjörg varð níræð í fyrra en hún fæddist á Akureyri árið 1923. Þrátt fyrir háan aldur er hún afar heilsuhraust og heldur enn eigið heimili í Norðurmýrinni. Sjálfsagt má þakka hreystina áhuga hennar á íþróttum og heilbrigðu líferni alla tíð. „Ég hafði farið í íþróttakennaranám og starfaði við íþróttakennslu í fjögur ár,“ segir Ingibjörg þegar hún lítur til baka. Hún vildi svo ganga menntaveginn áfram og hélt því í nám til útlanda en vegna veikinda móður sinnar hvarf hún snögglega frá náminu og fór aftur heim til Akureyrar.  
 
„Ég var þá beðin um að vinna á Röntgendeild Fjórðungssjúkrahússins og vann þar sem svokölluð röntgenkona. Röntgentæknar komu nokkrum árum síðar. Eftir fjögur ár þar leiddist mér að hafa engin réttindi og fór því í hjúkrunarnám sem tók þá þrjú ár. Röntgenhjúkrunarkonur voru þá nokkrar á Landspítalanum. Mikill skortur var á þessum tíma á hjúkrunarkonum og að námi loknu var ég beðin að koma norður og taka við starfi forstöðukonu Sjúkrahússins á Akureyri. Eftir tíu ára starf þar fékk ég svo starf í Heilbrigðis og tryggingaráðuneytinu,“ rifjar Ingibjörg upp.
 
Árlega hefur verið veitt úr sjóðnum frá stofnun hans, nú síðast í haust, en fyrsta úthlutunin fór fram árið 2008. Veittir hafa verið alls 24 styrkir til rannsóknaverkefna í hjúkrunarfræði.
 
Ingibjörgu þykir afar þýðingarmikið að Háskóli Íslands sinni rannsóknum á sem flestum sviðum. Til þess þurfi hann hins vegar fé og skilning þjóðarinnar á nauðsyn þess að styrkja slíka starfsemi.  „Þetta er starfsemi sem kemur okkur öllum til góða á einn og annan hátt. Leggjum sjóðum Háskólans lið - minnug þess að margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Ingibjörg að lokum.
 
Hægt er að fræðast um styrktarsjóði við Háskóla Íslands á heimasíðu styrktarsjóðanna.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is