Háskóli Íslands

Háskólinn geti leitt saman stórfyrirtæki til góðra verka

Á haustmánuðum 2016 komu saman margir að frestum sérfræðingum heims á sviði stoðtækjaframleiðslu til fundar og stefnumótunar í Háskóla Íslands í tengslum við nýstofnaðan rannsóknasjóð stoðtækjaframleiðendanna Össurar og Ottobock við skólann. Fyrrverandi forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs segir Háskóla Íslands vel í stakk búinn til þess að verða stökkpallur fyrir samstarf fleiri stórra alþjóðlegra fyrirtækja um mikilvæg verkefni á ýmsum sviðum samfélagsins.

Össur hf. og Ottobock eru meðal fremstu stoðtækjafyrirtækja heims og þau tóku höndum saman snemma á árinu 2016 og settu á fót um 200 milljóna króna rannsóknarsjóð við Háskóla Íslands, Rannsóknasjóð Össurar og Ottobock. Honum er ætlað að styðja vísindarannsóknir og frumkvöðlaverkefni á sviði háþróaðrar taugastjórnunar á gervilimum. Sjóðurinn er alþjóðlegur samkeppnissjóður og verður opinn bæði vísindamönnum og nemendum sem stunda rannsóknir við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki um víða veröld. 

Unnið er að því að þróa starf sjóðsins frekar og í þeim tilgangi var helstu sérfræðingum heims á sviði stoðtækjaframleiðslu boðið til Íslands í október 2016. Afrakstur fundarins, sem fram fór í Háskóla Íslands, verður m.a. vísindarit með yfirlitsgreinum yfir nýjustu rannsóknir tengdar stoðtækjaframleiðslu og framtíðarsýn í málaflokkum. Jafnframt er unnið hörðum höndum að því að gera rannsóknasjóðinn þannig úr garði að hægt verði að auglýsa eftir umsóknum um styrki á alþjóðavettvangi.

Hilmar Bragi Janusson, fyrrverandi forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og stjórnarmaður í Rannsóknasjóði Össurar og Ottobock við Háskóla Íslands, segir spennandi tíma fram undan á vettvangi stoðtækjaframleiðslu og sjóðurinn verði vonandi til þess að styðja enn frekar við þróuna á þessu sviði. Hann bendir jafnframt á að stofnun sjóðsins við Háskóla Íslands undirstriki þá virðingu sem skólinn njóti bæði hér heima og utan lands. „Hér erum við búin að koma á fót vettvangi þar sem stórfyrirtæki, í þessu tilviki á sviði stoðtækjaframleiðslu, sem alla jafna eru í harðri samkeppni geta unnið saman innan Háskólans og stutt nýjar og framúrskúrandi hugmyndir,“ segir Hilmar. Stórfyrirtækjum sé almennt ekki heimilit að vinna saman á markaði vegna samkeppnissjónarmiða.

Hilmar bendir á að Háskólinn geti því orðið vettvangur þar sem stórfyrirtæki, sem vilji láta gott af sér leiða og stuðla að framförum í samfélaginu, geta komið saman og ýtt áfram ýmsum framfarahugmyndum á ólíkum sviðum samfélagsins. Háskólinn sé vel í stakk búinn til þess að stýra og safna fjármagni til góðra verka. „Þekking vísindamanna Háskólans á hinum ólíku sviðum getur einnig nýst í þessu sambandi enda hefur skólinn á að skipa mörgum af færustu sérfræðingum landsins og jafnvel heimsins á ýmsum sviðum,“ segir Hilmar.

Rannsóknarsjóður Össurar og Ottobock er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Frekari upplýsingar um sjóðina er að finna á sjóðavef háskólans.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is