Háskóli Íslands

HÍ fær 25 milljónir til að styrkja ljósmæður og hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms

Í dag var stofnaður nýr styrktarsjóður við Háskóla Íslands, sem veitir styrki til nemenda í framhaldsnámi í ljósmóður- og hjúkrunarfræðum. Stofnframlagið er 25 milljónir króna sem er gjöf frá Soffíu Þuríði Magnúsdóttur sem arfleiddi Háskóla Íslands að meginhluta eigna sinna. Nýi sjóðurinn nefnist Minningarsjóður Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda. Undirritun stofnskrárinnar fór fram í dag í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, en þá tók Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskólans, við stofnfé sjóðsins að upphæð 25 milljónir króna.

Minningarsjóður Bjargar Magnúsdóttur og Magnúsar Jónassonar er stofnaður af dóttur þeirra hjóna, Soffíu Þuríði Magnúsdóttur samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá hennar. Tilgangur sjóðsins og markmið er að styrkja ljósmæður og hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms.

Stefna hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands er að efla framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs, sem samræmist stefnu Háskólans, enda vaxtabroddur hverrar fræðigreinar fólginn í framhaldsnemendum hennar. Minningarsjóður Bjargar Magnúsdóttir og Magnúsar Jónassonar er því mikill stuðningur við framhaldsnema í ljósmóður- og hjúkrunarfræði.

Á myndinni eru: Dögg Pálsdóttir lögmaður, Kristín Ingólfsdóttir rektor, Guðfinna Ragnarsdóttir, ættingi Soffíu Magnúsdóttur, Helga Gottfreðsdóttir, fulltrúi náms í ljósmóðurfræði, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, formaður stjórnar rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala, Ingibjörg R. Magnúsdóttir, vinkona Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur og fyrrverandi námsbrautarstjóri hjúkrunarfræðideildar, Sóley S. Bender, deildarforseti hjúkrunarfræðideildar og Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs.

Sjá nánari upplýsingar um Björgu Magnúsdóttur, Magnús Jónasson og Soffíu Þuríði Magnúsdóttur á bloggi Sigurðar Sigurðarsonar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is