Elsebeth Korsgaard Sorensen, prófessor í menntunarfræðum við Háskólann í Árósum, hlaut á dögunum styrk úr Sjóði Selmu og Kays Langvads við Háskóla Íslands. Sjóðnum er ætlað að styrkja menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur og nemur styrkurinn 75 þúsund dönskum krónum, jafnvirði um einnar og hálfrar milljónar íslenskra króna.
Elsebeth Korsgaard Sorensen er prófessor í menntunarfræðum með áherslu á upplýsinga- og samskiptatækni. Hún hefur m.a. sinnt umfangsmiklum rannsóknum og þróun á fjarkennslu, netkennslu og upplýsinga- og samskiptatækni í menntamálum og tekið þátt í stórum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem snúa að þessum viðfangsefnum.
Menntavísindasvið Háskóla Íslands vinnur nú að því að koma á rannsóknarsamvinnu við Sorensen sem m.a. snertir starfsþróun kennara með aðstoð nets eða uppbyggingu á námssamfélagi á netinu. Þá hefur Sorensen haft forgöngu um mótun á norrænu rannsóknar- og þróunarverkefni sem ber heitið „A Nordic Research Based Generic Concept for Design of Innovative Learning in Digital Learning Contexts“. Sólveig Jakobsdóttir, dósent á Menntavísindasviði, og Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor á sama sviði, munu koma að verkefninu.
Elsebeth Korsgaard Sorensen tók við styrk úr Sjóði Selmu og Kays Langvads í Danmörku á dögunum úr hendi Sörens Langvads, sonar Selmu og Kays. Sören er heiðursdoktor við Háskóla Íslands og situr í stjórn sjóðsins ásamt Kristínu Ingólfsdóttur, rektor háskólans, og Hafliða P. Gíslasyni, prófessor í eðlisfræði.
Um Sjóð Selmu og Kays Langvads
Sjóður Selmu og Kays Langvads var stofnaður árið 1964 og hefur það markmið að styrkja menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur. Í því skyni eru veittir styrkir úr sjóðnum til námsdvalar fyrir Íslendinga í Danmörku og Dani á Íslandi. Enn fremur er heimilt að styrkja hverja þá starfsemi, sem stjórn sjóðsins telur á hverjum tíma að muni stuðla að því markmiði sem sjóðnum er ætlað að vinna að.
Sjóðinn stofnuðu frú Selma Langvad, fædd Guðjohnsen, og Kay Langvad verkfræðingur í viðurkenningarskyni fyrir það mikilvæga hlutverk sem Ísland gegndi í lífi Kays Langvads og fjölskyldu hans. Íslenskir og danskir fræðimenn hafa notið góðs af sjóðnum og flutt þekkingu sína á milli landanna tveggja. Fyrsta styrkinn árið 1965 hlaut þáverandi þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn, síðar forseti Íslands, en á fjórða tug styrkja hefur verið úthlutað úr sjóðnum frá stofnun hans.
Frekari upplýsingar um sjóðinn má finna á sjóðavef Háskóla Íslands.