Háskóli Íslands

Hlutu styrki til doktorsrannsókna í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði

Þrír styrkir til doktorsrannsókna í ljósmóður- og hjúkrunarfræði voru veittir úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur við Háskóla Íslands þegar 50 ára afmæli kennslu í hjúkrunarfræði við skólann var fagnað í Hátíðasal Aðalbyggingar föstudaginn 29. september. Styrkhafar eru Edythe Laquindanum Mangindin, doktorsnemi í ljósmóðurfræði, og Guðbjörg Pálsdóttir og Hrönn Birgisdóttir, doktorsnemar í hjúkrunarfræði. Heildarupphæð styrkja er 2 milljónir króna.

Markmið doktorsrannsóknar Edythe er að meta menningarhæfni ljósmæðra fyrir og eftir námskeið sem byggist á Operational Refugee and Migrant Maternal Approach sem var þróað og hefur verið notað víða í Evrópu. Tveimur aðferðum til að meta menningarhæfni ljósmæðra er þar blandað saman. Annars vegar fylla þátttakendur í námskeiðinu út spurningalista um menningarhæfni fyrir og eftir námskeið og hins vegar verða notuð rýnihópaviðtöl fyrir og eftir námskeið. Ætlunin er að meta hvort hægt er að auka menningarhæfni ljósmæðra hér á landi með það að markmiði að bæta þjónustu við barnshafandi erlendar konur. Nýlegar rannsóknir benda til þess að ákveðinn ójöfnuður sé fyrir hendi í þjónustu við barnshafandi konur á Íslandi. Líklegra er að inngrip séu notuð í fæðingum kvenna af erlendum uppruna, þær upplifa minni virðingu í samskiptum sínum við heilbrigðisfagfólk en íslenskar konur og minna sjálfræði í að taka ákvarðanir um barneignarþjónustu. Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að menningarhæfni ljósmæðra sé mikilvægur þáttur í að bæta þjónustu við þennan jaðarhóp. 

Leiðbeinendur eru Helga Gottfreðsdóttir, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, og Emma Marie Swift, dósent við sömu deild. Í doktorsnefnd sitja einnig Helga Zöega, prófessor við Læknadeild, Kathrin Stoll, rannsakandi við Department of Family Practice við University of British Columbia í Kanada, og Franka Cadée, rannsakandi í lýðheilsuvísindum við University of Maastricht í Hollandi. 

Doktorsrannsókn Guðbjargar miðar að því að rýna í heilbrigðisþjónustu sem erlendum ferðamönnum er veitt. Fjöldi þeirra hefur stóraukist síðustu ár og eru áhrif þess á íslenskt heilbrigðiskerfi óþekkt. Mikilvægt er að þekkja þarfir erlendra ferðamanna fyrir heilbrigðisþjónustu svo hægt sé að veita þeim rétta þjónustu á réttum tíma og réttum stað. Rannsóknir skortir á ástæðum komu ferðamanna á heilbrigðisstofnanir, sértækum hjúkrunarþörfum þeirra og kostnaði til að bæta forvarnir og veitta heilbrigðisþjónustu. Í fyrsta hluta doktorsrannsóknarinnar verður unnin greining á komum erlendra ferðamanna á bráðamóttökur Landspítala 2010-2021. Í öðrum hluta verður rýnt nánar í Covid-tímabilið 2020-2021 og þær niðurstöður bornar saman við tímabilið 2018-2019 og komur íslenskra ríkisborgara. Í þriðja hlutanum verður gerð könnun meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa í bráðaþjónustu um hjúkrun og sértækar hjúkrunarþarfir erlendra ferðamanna.

Leiðbeinandi Guðbjargar er Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, og meðleiðbeinandi er Rúnar Vilhjálmsson, prófessor við sömu deild. Í doktorsnefnd sitja einnig Brynjólfur Mogensen, prófessor emeritus við Læknadeild, og Christien Van Den Linden, sem starfar við Haaglanden Medical Center í Haag í Hollandi.

Doktorsrannsókn Hrannar hverfist um gæði og gæðamat á gjörgæsludeildum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint gæði í heilbrigðisþjónustu sem  árangursríka, örugga, einstaklingsmiðaða, tímanlega, sanngjarna, samþætta og skilvirka. Ekki er til nein skilgreining á því hvað gæði í gjörgæsluþjónustu fela í sér og er tilgangur þessarar rannsóknar að fá sjónarhorn hagsmunaaðila á það hvernig skilgreina skuli gæði og mæla þau. Mikilvægt er að setja fram gæðavísa sem eru viðeigandi, skiljanlegir, mælanlegir með tilliti til áreiðanleika og réttmætis, breytilegir og framkvæmanlegir. Í fyrsta hluta doktorsrannsóknarinnar verða rýnihópar notaðir til að rýna í hugtakið gæði á gjörgæsludeild og hvernig hægt sé að mæla gæði og setja fram gæðavísa til hagnýtingar. Myndaðir verða hópar með sjúklingum, aðstandendum, hjúkrunarfræðingum og læknum. Í öðrum hluta rannsóknarinnar verður þróaður spurningalisti og gerð svokölluð Delphi-rannsókn þar sem lögð verður áhersla á að finna þá gæðavísa sem eru mikilvægir. 

Leiðbeinandi Hrannar er Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, og meðleiðbeinandi er Rannveig J. Jónasdóttir, lektor við sömu deild. Í doktorsnefnd sitja einnig Sigurbergur Kárason, prófessor við Læknadeild, og Leanne Aitken, prófessor við City University London.

Um Rannsóknarsjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur var stofnaður árið 2007. Sjóðurinn eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, var námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún var einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199. 

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Myndir frá afmælishátíðinni

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is