
Sjóðavefur Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir.hi.is, hefur verið færður í nýjan búning en þar er að finna upplýsingar um alla þá styrktarsjóði sem starfræktir eru við skólann og styðja við nám og rannsóknir í HÍ og víðar.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands er félag sem hefur umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands. Í vörslu Styrktarsjóðanna eru um 50 sjóðir og gjafir sem borist hafa Háskólanum allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa eftir staðfestri skipulagsskrá sem ætlar þeim að úthluta styrkjum til ýmissa verkefna nemenda, kennara og vísindamanna á öllum fimm fræðasviðum skólans.
Hver sjóður hefur ákveðinn tilgang eða markmið í takt við skipulagsskrá og eru úthlutanir úr sjóðunum í fullu samræmi við markmið viðkomandi sjóðs. Í skipulagsskrá sjóða kemur einnig fram hvernig og hvenær má úthluta úr sjóðunum. Fjárreiður Styrktarsjóðanna eru aðskildar frá fjárreiðum skólans. Á árunum 2023 og 2024 var tæplega 200 milljónum króna úthlutað úr sjóðum sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og heildarfjöldi styrkja á þeim tíma er nærri 180.
Mögulegir styrkir úr sjóðunum eru að öllu jöfnu auglýstir á vettvangi sem ætla má að nái augum og eyrum sem flestra hugsanlegra umsækjenda en einnig eru veittar viðurkenningar til útnefndra styrkhafa sem hafa sýnt afburðaárangur í námi og/eða starfi. Flestir sjóðirnir hafa sjóðsstjórn sem fer með málefni hvers sjóðs fyrir sig en úthlutanir miðast við ráðstöfunarfé sjóðsins ár hvert samkvæmt niðurstöðu ársreiknings. Leitast er við að úthluta reglulega úr þeim sjóðum sem hafa laust fé til ráðstöfunar.