Sverrir Jakobsson, aðjunkt við Sagnfræði- og heimspekideild
„Doktorsritgerð mín, Við og veröldin. Heimsmynd Íslendinga 1100-1400, fjallaði um viðhorf Íslendinga á miðöldum til umheimsins og að einhverju leyti um sameiginlega sögu og sjálfsmynd norrænna þjóða,“ segir Sverrir Jakobsson, aðjunkt í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Sverrir hefur hlotið styrk úr Sjóði Selmu og Kays Langvads, sem er einn af styrktarsjóðum Háskólans, en tilgangur sjóðsins er að styrkja menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur.
Sverrir hefur sérhæft sig í hugarfarssögu, rannsóknum á almennu hugarfari fyrri alda og þá sérstaklega viðhorfum Íslendinga á miðöldum til umheimisins.
„Að lokinni doktorsvörn fékk ég þriggja ára rannsóknastöðu við Hugvísindasvið til að rannsaka rými, vald og orðræðu í íslensku miðaldasamfélagi þar sem ég hef meðal annars skoðað hlutverk kirkjugriða og þróun valdatengsla frá persónubundnu valdi til svæðisbundins valds á 13. öld. Þar sæki ég í smiðju fræðimanna sem hafa ritað um rými, meðal annarra Henri Lefebvre og Michel Foucault, til að greina hvernig rýmisvitund Íslendinga á miðöldum var háttað,“ segir Sverrir, sem varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í apríl árið 2005.
„Rými er hluti kerfis sem skapað er af kennivaldi og orðræðu, iðulega tengt stofnunum og það hefur svo afturvirk áhrif á orræðumynstur og valdahugsun. Þessar skilgreiningar á rými eru mjög frábrugðnar þeim skilgreiningum sem notast er við nú á dögum. Í rannsóknum mínum rannsakaði ég meðal annars umræðu um rými í heimildum 12.-14. aldar, hvers konar sannleika var unnt að leita eftir og hvers konar sannleikur var viðurkenndur. Þessar skilgreiningar á rými eru mjög frábrugðnar þeim skilgreiningum sem notast er við nú á dögum.“
„Rýmisvitundin birtist í ýmsum samfélagsreglum, svo sem um kirkjugrið og griðastaði almennt. Þetta tengist líka þróun valds á Íslandi; hvernig valdakerfi sem byggðist einkum á persónulegum tengslum þróaðist yfir í svæðisbundin valdatengsl, líkt því sem voru ríkjandi annars staðar í Evrópu.“
„Eðli rannsóknarinnar vegna varði ég töluverðum tíma við vinnu doktorsritgerðar minnar til rannsókna á Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn,“ segir Sverrir, sem dvaldi í Kaupmannahöfn 2008-2010 við efnisöflun og fleira. Að sögn hans eru langflest handrit þeirra miðaldatexta sem snúa að þessu efni geymd í Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og er það í samræmi við samkomulag Íslands og Danmerkur sem gert var árið 1961 um skiptingu handritanna.
Sumarið 2009 kenndi Sverrir við rannsóknaskóla um norræn fræði við háskólann í Árósum. Hann hefur einnig kynnt rannsóknir sínar dönsku fræðasamfélagi í ýmsum greinum á dönsku og ensku, til dæmis í tímaritunum Viator, Scandinavian Studies og Arkiv för nordisk filologi. Meðal þeirra heimilda sem hann hefur rannsakað sérstaklega til að greina sjálfsmynd Dana á 12. og 13. öld er Gesta Danorum eftir Saxo Grammaticus.
Þessar rannsóknir hafa beint áhuga Sverris enn frekar að sameiginlegri sögu vestnorræna þjóða, þar á meðal sameiginlegum tengslum þeirra við Danmörku. „Ég er einn af höfundum miðaldakaflans í yfirlitsritinu Vestnordens historie, sem er áætlað að komi út í Kaupmannahöfn sumarið 2011. Eins er ég fulltrúi Háskóla Íslands í norrænu samstarfsverkefni um sögu eyríkjanna á Norður-Atlantashafi,“ segir Sverrir að lokum.