Tveir doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, þau Chutimon Muankaew og Ingólfur Magnússon, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Rannsóknir þeirra hafa það m.a. að markmiði að þróa nýja augndropa gegn háþrýstingi í augum og nýjar aðferðir við krabbameinslyfjagjöf.
Þetta er í níunda sinn sem doktorsnemum í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum við Háskóla Íslands er veitt viðurkenning úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 600 þúsund krónur og fær hvor styrkhafi fyrir sig 300.000 krónur.
Um doktorsverkefni Chutimon Muankaew: Háþrýstingur í augum er meginorsök margra augnsjúkdóma eins og gláku. Þrátt fyrir að fjölmörg lyf og lyfjaflokkar geti lækkað augnþrýsting er notagildi þeirra takmarkað, t.d. vegna takmarkaðs leysanleika lyfjanna og óstöðugleika þeirra í vatnslausnum. Sýklódextrín eru sykursambönd sem hafa verið rannsökuð í ýmsum lyfjaformum og m.a. notuð til að auka leysni fitusækinna lyfja í augndropum og táravökva og flæði þeirra frá yfirborði augans inn í augað. Í þessu verkefni eru örkornadreifur myndaðar úr fléttum lyfja og sýklódextríns, kornastærð ákvörðuð og fylgst með stöðuleika lyfs og örkorna. Einnig er flutningur lyfs í gegnum lífrænar himnur rannsakaður, svo sem flutningur lyfs úr augndropum á yfirborði augans inn í augað. Endanlegt markmið verkefnisins er að þróa nýja gerð augndropa.
Chutimon Muankaew lauk prófi í lyfjafræði frá Mahidol-háskóla í Taílandi árið 2004 og meistaraprófi í lyfjavísindum frá Kingston-háskóla í Bretlandi árið 2007. Hún starfaði sem akademískur starfsmaður í heimalandi sínu áður en hún hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands vorið 2013 undir leiðsögn Þorsteins Loftssonar prófessors.
Um doktorsverkefni Ingólfs Magnússonar: Þróuð hefur verið efnasmíðaaðferð sem byggist á notkun kítósans sem er náttúruleg fjölsykra sem unnin er m.a. úr rækju- og humarskel. Þessi aðferð hefur verið notuð við að smíða svokallaða kítósanörbera sem nýtast í krabbameinslyfjagjöf sem örvuð er með ljósi og við smíði á efninu N-asýlkítósani sem hefur verið mótað í himnur sem örva beinvöxt. Við frekari þróun er þörf á skilvirkri aðferð til að tengja kítósanafleiður við sameindir með virka efnahópa. Markmið doktorsverkefnisins er að þróa smellefnafræðiaðferðir (e. click chemistry) til að tengja virka efnahópa við kítósanafleiður í vatnslausn á sérvirkan og skilvirkan hátt. Aðferðin verður notuð til að tengja kítósanörbera við tiltekin prótín og rannsaka krabbameinshemjandi virkni þeirra. Viðloðun beinvefsfrumna og sérhæfing við yfirborð himna úr þessum efnum verður rannsökuð í samstarfi við Blóðbankann.
Ingólfur Magnússon útskrifaðist sem lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands 2011. Hann hóf doktorsnám í lyfjafræði við Háskóla Íslands vorið 2012 undir handleiðslu Más Mássonar prófessors.
Um styrktarsjóðinn
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er þá orðið um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.
Bent Scheving Thorsteinsson lést á Landspítalanum 7. janúar síðastliðinn á 93. aldursári. Hann var einn af mestu velunnurum Háskóla Íslands og munu sjóðirnir sem hann stofnaði við háskólann halda minningu hans á lofti um ókomin ár.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.