Sex doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala. Þetta eru þau Ana Margarida Pinto e Costa, Xiaxia Di, Maonian Xu, Sunna Jóhannesdóttir, Phennapha Saokham og André Rodrigues Sá Couto. Rannsóknir þeirra ná yfir mjög breitt svið innan lyfjafræðinnar, allt frá leit og einangrun lífvirkra efna úr náttúrunni til hagnýtingar sýklódextrína í augnlyf.
Þetta er í tíunda sinn sem doktorsnemum í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum við Háskóla Íslands er veitt viðurkenning úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 2,1 milljón króna og fær hver styrkhafi fyrir sig 350.000 krónur.
Doktorsverkefni Margaridu Pinto e Costa (amp14@hi.is) miðar að því að rannsaka hvort nýta megi efni úr sjávarsvömpum í nýja áhugaverða lyfjasprota og þróa leiðir til að framleiða lyfjasprota úr svömpum með líftækni. Áhersla er lögð á að skima fyrir efnasamböndum með svokölluðum UPLC-QTof-MS/MS aðferðum og í kjölfarið einangra og ákvarða byggingu lífvirkra efnasambanda úr svömpunum og kanna krabbameinshemjandi áhrif þeirra. Markmið verkefnisins er að skila nýjum virkum efnasamböndum og þar með hugsanlegum lyfjasprotum framtíðarinnar ásamt því að þróa nýjar leiðir til hagkvæmrar og sjálfbærrar ræktunar á svömpum og samlífsörverum þeirra. Efnabygging nýrra og áhugaverða krabbameinshemjandi efna úr svömpum, bæði úr íslenskum sjó og heitari sjó við Indónesíu, verður skilgreind nákvæmlega í verkefninu.
Ana Margarida lauk meistaraprófi í umhverfismengunar- og eiturefnafræði í heimalandi sínu, Portúgal, árið 2010 og starfaði um tíma við rannsóknir á lífvirkum efnum í lífverum við strendur landsins. Hún hóf doktorsnám árið 2014 við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Xiaxia Di (xid1@hi.is) hyggst í doktorsrannsókn sinni skima eftir efnum í sjávarhryggleysingjum sem hafa bólguhemjandi virkni. Bólga er talin einn af aðalorsakavöldum framþróunar margra algengra sjálfsofnæmis- og hrörnunarsjúkdóma og leitað er að efnum sem væri hægt að nýta til að draga úr bólgu. Hafsvæðið umhverfis Ísland hefur lítið verið rannsakað með tilliti til lífvirkra efna en einstök staðsetning landsins í Norður-Atlantshafi gerir það sérstaklega áhugavert. Skimað hefur verið eftir virkni í fjölda útdrátta úr sjávarhryggleysingum og sýndu tveir þeirra bólguhemjandi virkni. Niðurstöður verkefnisins geta leitt til uppgötvunar náttúruefna sem hafa sannanlega bólguhemjandi virkni ásamt staðfestingu á hvernig þau virka. Einhver þeirra gætu jafnvel orðið að lyfjasprotum. Verkefnið hlaut 1. verðlaun í hagnýtingarsamkeppni Háskóla Íslands fyrr í þessum mánuði.
Xiaxia Di lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá Shandong University í Kína árið 2013. Eftir námið vann hún hjá Pharmaceutical Co.,Ltd í Kína þar til hún hóf doktorsnám í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2014.
Markmið doktorsverkefnis Maonian Xu (xum1@hi.is) er að ákvarða hvort hægt sé að nota tegundaþróunarlegan skyldleika til að segja fyrir um efnafræðilega breytileika og innihald lífvirkra efna í fléttum og þremur jafnategundum sem vaxa víðs vegar á Íslandi. Fléttur eru samlífi á milli svepps og ljóstillífandi þörungs eða bakteríu en jafnar eru grómyndandi lágplöntur. Lágplöntur og fléttur hafa ekki verið rannsakaðar í sama mæli og háplöntur með tilliti til lífvirkra efna.
Maonian Xu lauk MS-prófi í matvælafræði frá University of Helsinki árið 2013 og hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2014.
Doktorsverkfeni Sunnu Jóhannesdóttur (suj1@hi.is), Phennapha Saokham (phs3@hi.is) og André Rodrigues Sá Couto (ars70@hi.is) snúa öll að svokölluðum sýklódextrín-lyfjaferjum. Sýklódextrín eru hjálparefni sem notuð eru við lyfjagerð til að auka leysanleika og stöðugleika lyfja í vatni og til að auka aðgengi lyfja frá meltingarveginum út í blóðrásina. Í lyfjaiðnaði eru sýklódextrín notuð til að auka flutning lyfja í gegnum lífrænar himnur (þ.e. auka aðgengi lyfjanna inn í líkama manna og dýra) og til að mynda vatnslausnir torleysanlegra lyfja, svo sem í stungulyfjum og augndropum.
Sunna mun í doktorsnámi sínu vinna að þróun sýklódextrín-lyfjaferja fyrir peptíð og prótín sem nýta má gegn augnsjúkdómum. Sjúkdómar í bakhluta augans eru helsta orsök blindu. Lyfjameðhöndlun slíkra sjúkdóma er vandmeðfarin í ljósi þess hve erfitt reynist að ná fram læknisfræðilegri þéttni lyfs í bakhluta augans eftir lyfjagjöf á yfirborð þess. Sérstaklega getur verið erfitt að koma prótínum og peptíðum til bakhluta augans og verður því oftast að sprauta slíkum lyfjum beint inn í augað eða koma þeim inn í augað með skurðaðgerð. Í fyrsta áfanga verkefnisins voru lyfjaferjur fyrir peptíðið sýklósporín A hannaðar og rannsakaðar í kanínum. Niðurstöðurnar eru í vinnslu en fyrstu vísbendingar sýna að droparnir valda engum óæskilegum áhrifum í augum.
Sunna lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og meistaraprófi í lyfjafræði frá sama skóla árið 2012. Hún hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands sama ár.
Phennapha, sem ver doktorsritgerð sína í lyfjafræði föstudaginn 25. nóvember, þróaði í doktorsnámi sínu aðferðir til að magngreina sýklódextrín og greina myndun sýklódextrínagna í vatnslausnum. Slíkar agnir geta valdið erfiðleikum við lyfjaþróun en agnirnar bjóða jafnframt upp á ýmis tækifæri til nýsköpunar í lyfjafræði.
Phennapha Saokham lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Chiang Mai University í Taílandi árið 2005 og meistaraprófi í lyfjafræði frá Chulalongkorn University í Taílandi árið 2010. Eftir námið vann hún hjá Silom Medical Co., Ltd í Bangkok í Taílandi þar til hún hóf doktorsnám í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands vorið 2013.
Í doktorsverkefni sínu hyggst André varpa ljósi á það þegar styrkur sýklódextrína eykst og sýklódextrín og sýklódextrínfléttur hópa sig saman og mynda nanóagnir. André mun skoða nánar myndun agnanna og eðlisefnafræðilega eiginleikar þeirra.
André Rodrigues Sá Couto lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá lyfjafræðideild Háskólans í Lissabon í Portúgal árið 2012 og starfaði við sama háskóla sem fræðimaður þar til hann hóf doktorsnám í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2014.
Um styrktarsjóðinn
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er þá orðið um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.
Bent Scheving Thorsteinsson lést á Landspítalanum 7. janúar 2015 á 93. aldursári. Hann var einn af mestu velunnurum Háskóla Íslands og munu sjóðirnir sem hann stofnaði við háskólann halda minningu hans á lofti um ókomin ár.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.