Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á fæðingarreynslu erlendra kvenna og áhrifum erfiðrar lífsreynslu á fæðingar

Þrír styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði ljósmóðurfræða úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda. Tvær rannsóknanna snerta reynslu erlendra kvenna af barneignarferli og -þjónustu á Íslandi og sú þriðja hefur það markmið að auka þekkingu á áhrifum erfiðrar lífsreynslu á upplifun fæðingar. Heildarupphæð styrkja nemur 3 milljónum króna.
 
Embla Ýr Guðmundsdóttir vinnur að doktorsrannsókn sem ber heitið „Útkoma fæðinga kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og reynsla þeirra af umönnun í fæðingu“. Eins og nafnið bendir til er ætlunin að varpa ljósi á stöðu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi í barneignarferlinu en lítið er vitað um útkomu fæðinga og reynslu þessa stækkandi hóps af barneignarþjónustu í samanburði við konur fæddar í landinu. Stuðst verður við upplýsingar úr Fæðingaskrá um allar konur sem ólu börn á Íslandi á árunum 1997-2018, eða um 90.000 fæðingar. Auk þess verða tekin einstaklingsviðtöl við konur af fjölbreyttum uppruna á meðgöngu og eftir fæðingu. Ætlunin er m.a. að koma auga á hugsanlegar hindranir í barneignarþjónustunni og kanna þá þætti sem stuðla að bættri heilsu kvenna af erlendum uppruna. Niðurstöðurnar verður hægt að nýta til að mæta þörfum erlendra kvenna á Íslandi við barneignir. 
 
Embla Ýr Guðmundsdóttir útskrifaðist með embættispróf í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands vorið 2008 og meistarapróf í ljósmóðurfræði við sama skóla vorið 2014. Embla starfaði sem ljósmóðir á fæðingardeild Landspítalans á árunum 2008-2019, við meðgönguvernd á Heilsugæslunni í Lágmúla 2008-2013 og sjálfstætt í heimaþjónustu á árunum 2008-2010. Embla hefur auk þess kennt lækna- og ljósmæðranemum við Háskóla Íslands sem stundakennari frá 2015 og sem aðjunkt frá 2018. Hún hóf doktorsnám í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild vorið 2019 undir leiðsögn Helgu Gottfreðsdóttur, ljósmóður, prófessors og námsbrautarstjóra í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands, og Marianne Nieuwenhuijze, ljósmóður og prófessors við Research Centre for Midwifery Science í Academie Verloskunde Maastricht í Hollandi. 
 
Rannsókn Emmu Marie Swift og Valgerðar Lísu Sigurðardóttur ber heitið „Uncovering the determinants of difficult birth experiences: an epidemiological approach“. Meginmarkmið hennar að auka þekkingu á áhrifum erfiðrar lífreynslu á upplifun fæðingar. Rannsóknir hafa í auknum mæli varpað ljósi á langtímaáhrif erfiðrar lífsreynslu á heilsu og líðan fólks. Lítið er hins vegar vitað um hvort erfið lífsreynsla hafi áhrif á fæðingarreynslu kvenna. Rannsóknarteymið mun nýta gögn úr rannsókninni Áfallsögu kvenna og Fæðingaskrá auk nýrra spurningalista til þess að að auka þekkingu á áhrifum erfiðrar lífreynslu í æsku á upplifun fæðingar. Áfallasaga kvenna er einstakur gagnagrunnur sem inniheldur svör yfir 31.000 kvenna um áföll á lífsleiðinni. Fyrstu niðurstöður benda til að fæðingarreynsla hafi verið erfið hjá um þriðjungi þeirra sem hafa svarað. Í fyrsta hluta rannsóknarinnar munu Emma og Valgerður Lísa þýða og forprófa spurningalista um fæðingarreynslu áður en hann verður sendur til kvenna sem hafa nú þegar svarað spurningalistum í Áfallasögu kvenna um áföll í æsku og fæðingarreynslu. Niðurstöður rannsóknarinnar munu gefa mikilvægar upplýsingar um hvaða þættir hafa helst áhrif á erfiða fæðingarreynslu kvenna á Íslandi og geta verið leiðarljós til að auka gæði í barneignarþjónustu. Samstarfsaðilar eru prófessorarnir Helga Zoega, Unnur Valdimarsdóttir, Arna Hauksdóttir, Þóra Steingrímsdóttir og Helga Gottfreðsdóttir og Edda Björk Þórðardóttir nýdoktor. 
 
Emma Marie Swift hlaut einnig styrk fyrir rannsóknina "Giving mothers a voice: A survey of migrant women‘s experience of respect and autonomy in maternity care in Iceland". Rannsóknin hefur að markmiði að auka þekkingu á reynslu kvenna af erlendum uppruna af barneignarþjónustu á Íslandi. Til þess að uppfylla lykilkröfur íslensks heilbrigðiskerfis um jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að hlúa vel að viðkvæmum hópum, svo sem innflytjendum sem eru nú um 14% íbúa landsins. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt ríka áherslu á að í gæðabarneignarþjónustu sé hugað að sjálfræði, virðingu, andlegum stuðningi og upplýstri ákvarðanatöku. Lítið er vitað um hvernig konur af erlendum uppruna upplifa barneignarþjónustuna á Íslandi með þetta í huga. Rannsóknin er hluti af doktorsverkefni sem hefur að markmiði að auka þekkingu á upplifun erlendra kvenna af barneignarþjónustu á Íslandi og verður gögnum safnað með spurningalistum sem verða sendir til erlendra kvenna sem hafa eignast barn á Íslandi á síðustu fimm árum. Með þessu er ætlunin að gefa konum af erlendum uppruna rödd og vægi í þróun barneignarþjónustu á Íslandi. Samstarfsaðilar rannsóknarinnar eru Edythe Mangindin, Helga Gottfreðsdóttir, Arna Hauksdóttir og Kathrin Stoll.
 
Emma Marie Swift er lektor við Hjúkrunarfræðideild og nýdoktor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Hún sinnir einnig ljósmóðurstörfum hjá Björkinni, ljósmæðrum. Emma lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands í janúar 2019. Sérsvið hennar í rannsóknum og ljósmóðurstörfum er að styðja við eðlilegt barneignarferli og samfellda þjónustu. Emma hefur þróað og rannsakað hópmeðgönguvernd til að athuga hvort slík nálgun geti haft jákvæð áhrif á heilsu kvenna og eflt trú konunnar á eigin getu til að fæða án inngripa. Verkefnið var nýsköpun í meðgönguvernd hér á landi. Hún skoðar einnig um þessar mundir framkallaðar fæðingar á Íslandi síðastliðin 20 ár með það markmiði að áætla hvenær sé heppilegast að framkalla fæðingar hjá hraustum konum í eðlilegri meðgöngu. 
 
Valgerður Lísa Sigurðardóttir er sérfræðiljósmóðir á kvennadeild Landspítala og klínískur lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar í rannsóknum og ljósmóðurstörfum tengjast geðheilsu og andlegri líðan kvenna í barneignarferlinu. Valgerður Lísa er um það bil að ljúka doktorsnámi í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið fjallar um neikvæða upplifun af fæðingu og hefur hún þróað meðferð sem ljósmæður veita konum sem hafa upplifað slíka fæðingu eða hafa þörf fyrir að ræða um fæðingu sína. Leiðbeinandi Valgerðar Lísu er Helga Gottfreðsdóttir prófessor.
 
Þetta er í fimmta sinn sem styrkur er veittur úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda en markmið hans er að styrkja ljósmæður og hjúkrunarfræðinga til framhaldsnáms. Sjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands 22. desember 2008 samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur til minningar um foreldra hennar, Björgu Magnúsdóttur ljósmóður og Magnús Jónasson bónda sem bjuggu allan sinn búskap í Túngarði á Fellsströnd í Dölum. Björg var þar umdæmisljósmóðir árabilið 1910-1951.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is