Styrkir úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur afhentir við Háskóla Íslands.
Á degi Hjúkrunarfræðideildar, 1. október, voru veittir þrír styrkir til doktorsnema í hjúkrunarfræðum úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Styrkhafarnir eru Ingibjörg Hjaltadóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ, Ásta St. Thoroddsen, dósent við Hjúkrunarfræðideild HÍ og Anna Ólafía Sigurðardóttir, klínískur lektor og sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala. Heildarupphæð styrkjanna nemu einni milljón króna. Þetta í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en hann var stofnaður við Háskóla Íslands í júní árið 2007.
Markmið doktorsrannsóknar Ingibjargar Hjaltadóttur er að kanna þróun á heilsufari þeirra sem nýlega hafa flust á húkrunarheimili, færni þeirra og lifun. Í rannsókninni eru sett gæðaviðmið fyrir íslensk hjúkrunarheimili og skoðað hvernig gæði hjúkrunar hafa þróast á árunum 1996-2009. Í niðurstöðum rannsóknarinnar felst mikilvæg þekking sem nota má til að fá yfirlit yfir þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum hér á landi, ástand íbúa og hvernig hægt er að bæta þjónustu við þá. Aukin þekking á framangreindum þáttum getur leitt til breytinga í meðferð og hjúkrunar á hjúkrunarheimilum, sem og skipulagi öldrunarþjónustu í heild sinni.
Doktorsrannsókn Önnu Ólafíu fjallar um þróun og innleiðingu hjúkrunarmeðferða á kvenna og barnasviði. Lífsgæði barna og unglinga með langvinn veikindi verða skoðuð og þróun hjúkrunarmeðferða fyrir fjölskyldur barna og unglinga með astma. Markmið rannsóknanna er að kanna ávinning af meðferðarsamræðum við foreldra barna og unglinga með astma. Athugað verður hvaða áhrif samtölin hafa á fjölskyldustuðning, fjölskylduvirkni og lífsgæði barnanna, út frá sjónarmiðum foreldranna. Einnig er starfsánægja hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra metin í kjölfar innleiðingar fjölskylduhjúkrunar, þar semskoðað er sérstaklega starfsálag, sjálfstæði í starfi og stuðningur á vinnustað meðal hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra starfandi á kvenna-og barnasviði.
Doktorsrannsókn Ástu Thoroddsen er á lokastigi. Markmið hennar var að kanna notagildi, innihald og nákvæmni gagna í hjúkrun, sem skráð eru með stöðluðu fagmáli í sjúkraskrár og hlutverk þeirra í að styðja við þekkingarvinnu hjúkrunarfræðinga. Greining og skráning á þörfum og óskum sjúklinga er grunnurinn að því að veita viðeigandi og góða hjúkrunarþjónustu. Á vettvangi hjúkrunar á Íslandi hefur skort að skráðar upplýsingar hafi verið á tölvutæku kóðuðu formi, sem hefur leitt til þess að heilbrigðisgögn eru ófullkomin. Þetta hefur mögulega haft áhrif á gæði þjónustu, öryggi sjúklinga og gert störf hjúkrunarfræðinga ósýnileg.
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum sjóðsins. Ingibjörg R. Magnúsdóttirhjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Rannsóknasjóðurinn er fyrst og fremst styrktur með sölu minningarkorta og gjafafé.
Frekari upplýsingar veitir Sigrún Ólafsdóttir verkefnisstjóri Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, sigrunol@hi.is 525-5280.
Myndatexti: Ingibjörg Hjaltadóttir styrkhafi, Ingibjörg R. Magnúsdóttir, stofnandi sjóðsins og Anna Ólafía Sigurðardóttir styrkhafi.