Háskóli Íslands

Leynast ný krabbameinslyf í íslenskum sjávarlífverum?

Sesselja S. Ómarsdóttir, dósent í Lyfjafræðideild

Sjávarlífverur við Ísland hafa lítið verið rannsakaðar út frá lyfjafræðilegu sjónarhorni. Nú er hins vegar í fullum gangi rannsókn sem Sesselja S. Ómarsdóttir, dósent í lyfja- og efnafræði náttúruefna við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, stendur fyrir. Rannsóknin miðar að því að finna ný efni úr íslenskum sjávarlífverum og kanna áhrif þeirra á krabbameinsfrumur.

„Það er mjög áhugavert ef tekst að finna ný og virk efni úr íslenskum sjávarlífverum sem hugsanlega gætu orðið lyfjasprotar gegn krabbameini,“ segir Sesselja. „Innan íslenskrar efnahagslögsögu lifa á bilinu 6-8 þúsund tegundir sjávardýra. Þar að auki er staðsetning Íslands í Norður-Atlantshafinu og umhverfið í kringum landið mjög sérstakt. Það vekur áhuga vísindamanna að rannsaka efnainnihald þeirra lífvera sem búa hér við þessi skilyrði.“ Þetta verkefni er hluti af stærra verkefni sem unnið er í samstarfi við Elínu Soffíu Ólafsdóttur prófessor og fleiri innlenda og erlendra samstarfsaðila.

Í dag eru tveir þriðju allra krabbameins- og sýkingalyfja náttúruefni sem eiga rætur sínar að rekja til plantna, sjávardýra og örvera. „Þetta kemur ekki á óvart sé haft í huga að lífverur, sérstaklega þær sem ekki geta flúið af hólmi, svo sem plöntur og ýmsar frumstæðar sjávarlífverur, heyja stöðugan efnahernað sín á milli. Stríðið um að lifa af með vörn og sókn hefur staðið í milljónir ára og myndað ótrúlega fjölbreyttan banka lífvirkra efnasambanda í náttúrunni,“ segir Sesselja. „Það er mikið að gerast í rannsóknum á efnasamböndum úr sjávardýrum og einnig í rannsóknum á örverum sem lifa á sjávardýrunum því að þær framleiða efni sem er líka áhugavert að rannsaka.“

Við Lyfjafræðideild var gerð frumathugun sem gaf til kynna að í sjávarlífverum sem lifa á grunnsævi sé að finna mjög áhugaverð efni. Þá var 35 tegundum sjávardýra safnað í fjöru og á grunnsævi við strendur Íslands. Við þessar uppgötvanir kviknaði áhugi Sesselju sem hefur í framhaldinu áhuga á því að halda rannsókninni áfram og einnig að rannsaka annars konar lyfjavirkni efna úr íslenskum sjávarlífverum.

„Hér á Íslandi gæti verið eitthvað sérstakt sem ekki finnst annars staðar þar sem lífsskilyrðin hér eru svo einstök, svo sem staðsetningin, kaldur sjór og jarðhiti. Mest hefur verið rannsakað af sjávarlífverum í heitum höfum hingað til þannig að þetta er afar spennandi,“ segir Sesselja. Leitin að nýjum lyfjum í náttúrunni er einn af hornsteinum lyfjafræðinnar og forsenda fyrir framþróun og framleiðslu margra nýrra lyfja við erfiðum sjúkdómum.

Rannsóknasjóður hefur styrkt verkefnið.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is