Háskóli Íslands

Ónæmissvör nýburamúsa við bólusetningum – nýir ónæmisglæðar og ónæmisvakar til að vernda gegn pneumókokka- og inflúensusýkingum

Þórunn Ásta Ólafsdóttir, Heilbrigðisvísindi

Ónæmiskerfi nýbura er óþroskað og því eru þeir í meiri hættu að fá ýmsa smitsjúkdóma en þeir sem eldri eru. Við notum vikugamlar mýs sem líkan fyrir nýbura. Í þessu verkefni verður leitast við að auka ónæmissvörun nýburamúsa við bólusetningu gegn tveimur sýklum, S. pneumoniae eða pneumókokkum og inflúensuveirunni af stofni H5N1.

Ónæmisglæðar eru efni sem geta aukið ónæmissvar við bólusetningu, en einungis tveir ónæmisglæðar eru leyfðir í mönnum í dag: Alum og MF59. Þróun nýrra, öruggra og öflugra ónæmisglæða, sem auka svokallað Th1- ónæmissvar er mikilvæg þar sem ónæmiskerfi nýbura er Th2-sveigt og svörun dauf og hæg. Prófuð verða áhrif þriggja ónæmisglæða á ónæmiskerfi nýburamúsa við bólusetningu gegn pneumókokkum og inflúensu.

Við höfum sýnt fram á að ónæmisglæðarnir LT-K63 og CpG2006 auka báðir ónæmissvar nýburamúsa gegn próteintengdu pneumókokka bóluefni (Pnc-TT), en á ólíkan hátt. Í fyrsta hluti verkefnisins verður kannað hvort ónæmissvarið eflist enn frekar ef þeir eru báðir gefnir með bóluefninu, en takmarkanir ónæmiskerfis nýbura eru margvíslegar. Í öðrum hluta verkefnisins verða áhrif nýs ónæmisglæðis, IC31 , á ónæmissvar nýbura könnuð við bólusetningu með Pnc- TT og nýjum prótínbóluefnum, en þau eru ódýrari kostur en Pnc-TT og eitt eða fá prótein gætu veitt vernd gegn mörgum hjúpgerðum pneumókokka. Í þriðja hlutanum verða ónæmissvör gegn nýju inflúensubóluefni gegn H5N1-stofninum rannsökuð í nýburamúsum, m.a. hvort hægt er að minnka skammta bóluefnisins ef IC31 er gefinn með.

Niðurstöður verkefnisins munu vonandi leiða í ljós nýjar blöndur bóluefna og ónæmisglæða sem geta verndað nýburamýs gegn alvarlegum sýkingum og virkni þeirra á óþroskað ónæmiskerfi nýbura verður kortlögð Frekari þróun slíkra bóluefna til notkunar í mönnum gæti leitt til mikils hagræns og heilsufarslegs ávinnings.

Leiðbeinandi:

Ingileif Jónsdóttir, dósent í ónæmisfræði við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Samstarfsaðilar:

Ónæmisfræðideild Landspítala – háskólasjúkrahúss; Sanofi Pasteur, Frakklandi; Novartis, Ítalíu; University of Adelaide, Ástralíu; Intercell, Austurríki; Nobilon International BV, Hollandi; Retroscreen Virology, Bretlandi; Erasmus Medical Center, Hollandi.

Úthlutunarár: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is