Háskóli Íslands

Peningagjöf til Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur

Lokaverkefnisdagur Hjúkrunarfræðideildar var haldinn hátíðlegur 14. maí síðastliðinn. Í tilefni af því gaf 25 ára útskriftarárgangur hjúkrunarnema úr Háskóla Íslands 81.000 krónur í Rannsóknasjóð Ingibjargar R. Magnúsdóttur.

Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur var stofnaður 29. júní 2007. Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum. Sjóðurinn hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun, verður bráðum auglýst eftir umsóknum um styrkinn og fyrirhugaðar úthlutanir eru í haust.

Tvívegis hefur verið úthlutað úr sjóðnum, fyrst árið 2008, en þá hlutu þær Jóhanna Bernharðsdóttir og Eydís Sveinbjarnardóttir, doktorsnemar í hjúkrunarfræði við Hjúkrunarfræðideild, styrk úr sjóðnum. Úthlutað var í annað sinn úr sjóðnum árið 2009. Styrkhafar voru dr. Helga Gottfreðsdóttir, ljósmóðir og lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, og doktorsneminn Þorbjörg Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri. Í hvort sinn nam heildarupphæð styrks 750.000 krónum.  

Ingibjörg R. Magnúsdóttir er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóðu að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.

Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti t.d. vegna árgangaafmæla og útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort til styrktar sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka, 513-26-4057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is