Ingibjörg R. Magnúsdóttir, velunnari Háskóla Íslands og stofnandi Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur, afhenti Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, peningagjöf í gær, 18. janúar, að upphæð 500.000 krónur. Gjöfin rennur beint til sjóðsins sem stofnaður var 29. júní árið 2007 en tilgangur hans er að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði.
Ingibjörg hefur verið helsti frumkvöðull hjúkrunarnáms við Háskóla Íslands og var hún einn ötulasti talsmaður háskólamenntunar í hjúkrun á Íslandi og átti hlut að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Ingibjörg er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskólann og fyrrverandi skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Sjóðurinn var stofnaður að frumkvæði hennar í samvinnu við Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.
Úthlutað hefur verið úr sjóðnum árlega frá stofnun hans og alls hafa verið veittir sjö styrkir til doktorsverkefna í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum. Sjóður af þessu tagi er mikil lyftistöng fyrir hjúkrunarfræði- og ljósmóðurfræðinám hér á landi og ekki síður fyrir Háskóla Íslands, en eitt af meginmarkmiðum skólans er að auka rannsóknir og fjölga doktorsnemum við skólann.
Sem dæmi um verkefni sem hlotið hefur styrk úr sjóðnum má nefna rannsókn dr. Helgu Gottfreðsdóttur, dósents í ljósmóðurfræðum, sem hlaut styrk úr sjóðnum og var fyrsti doktorinn sem brautskráðist frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands árið 2009. Rannsókn Helgu fjallaði um verðandi foreldra og ákvörðun um fósturskimun. Þættir í umhverfi heilbrigðra kvenna og maka þeirra á Íslandi eru skoðaðir og leitast er við að skilja aðdraganda og ákvörðun þeirra um að þiggja eða hafna skimun. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa tilefni til að endurskoða aðgengi verðandi foreldra að upplýsingum og úrræðum sem auka möguleika þeirra til umræðu um skimunina og upplýstrar ákvörðunar.
Frá stofnun sjóðsins hefur hann verið að styrkjast m.a. vegna hvatningar frá Ingibjörgu og fjárframlaga frá henni sjálfri og utanaðkomandi aðilum, m.a. hjúkrunarfræðingum og velunnurum ljósmóður- og hjúkrunarfræði og ljósmóður- og hjúkrunarmenntunar hér á landi.
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti t.d. vegna árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala styrktarsjóða HÍ er: 571292-3199.