Rannsóknir tveggja doktorsnema í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands, sem snerta aðgengi innflytjenda að barneignarþjónustu hér á landi og tengsl meðferðar og þjónustu við lífsgæði og bata Íslendinga sem takast á við alvarlega geðsjúkdóma, hafa fengið styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Styrkhafar eru Edythe Laguindanum Mangindin, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, og Margrét Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og hljóta þær samtals 1 milljón króna.
Markmið doktorsrannsóknar Edythe Laquindanum Mangindin er þríþætt. Í fyrsta lagi að prófa þá tilgátu að konur af erlendum uppruna upplifi minni virðingu og sjálfræði og meiri mismunun en innfæddar konur í barneignarþjónustu á Íslandi, í öðru lagi að þróa, innleiða og meta áhrif þjálfunar í menningarhæfni fyrir íslenskar ljósmæður og í þriðja lagi að lýsa upplifun erlendra kvenna af því að þiggja barneignarþjónustu hjá íslenskum ljósmæðrum sem hafa fengið þjálfun í menningarhæfni.
Jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu er talið lykilatriði í stefnu heilbrigðismála á Íslandi. Ísland er fjölmenningarsamfélag þar sem um 15,6% íbúa eru innflytjendur og hlúa þarf sérstaklega vel að þessum hópi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt ríka áherslu á að við barneignarþjónustu skuli huga að sjálfræði, virðingu, andlegum stuðningi og upplýstri ákvarðanatöku en lítið er vitað um stöðu þessara þátta hér á landi. Leiðbeinandi Edythe er Emma Marie Swift, lektor í ljósmóðurfræði við Hjúkrunarfræðideild, og umsjónarkennari er Helga Gottfreðsdóttir, prófessor í ljósmóðurfræði við sömu deild.
Doktorsrannsókn Margrétar Eiríksdóttur hefur það að markmiði að auka þekkingu á því hvernig meðferð og þjónusta verka saman eða óháð hver annarri til áhrifa á lífsgæði og bata fólks með alvarlega geðsjúkdóma. Þáttur hjúkrunarfræðinga sem ábyrgra meðferðaraðila verður athugaður sérstaklega. Bati og lífsgæði alvarlega geðsjúkra eru m.a. undir því komin að þeir og fjölskyldur þeirra fái magþætta þjónustu, njóti félagslegs stuðnings og hafi traust samband við meðferðaraðila. Tvö hundruð manns sem uppfylla greiningarskilmerki alvarlegs geðsjúkdóms og njóta meðferðar á geðdeildum Landspítalans eða á Sjúkrahúsinu á Akureyri taka þátt í rannsókninni. Hver þátttakandi svarar stöðluðum spurningum í alls þremur viðtölum með átta mánaða millibili. Þess er vænst að niðurstöður rannsóknarinnar geti leitt af sér tillögur um þróun hjúkrunar og annarrar þjónustu við alvarlega geðsjúka. Áhersla verður lögð á tillögur varðandi nám, þjálfun og starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga til að efla þá í að veita alvarlega geðsjúkum skjólstæðingum sínum samfellda geðhjúkrun. Leiðbeinendur Margrétar eru dr. Rúnar Vilhjálmsson, dr. Jóhanna Bernharðsdóttir, dr. Gísli Kort Kristófersson og dr. Magnús Haraldsson.
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.