Háskóli Íslands

Rannsakar stjórnkerfi einveldis á Íslandi á 17. öld

Gunnar Marel Hinriksson,  meistaranemi við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, hlýtur styrk úr Sagnfræðisjóði Björns Þorsteinssonar til að rannsaka stjórnkerfi einveldis Danakonungs á Íslandi á síðari hluta 17. aldar. Styrkurinn var afhentur á Bjarnarmessu sem haldin var í Veröld 20. mars í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá fæðingu dr. Björns. Styrkupphæð er 300.000 krónur. 
Sagnfræðisjóður Björns Þorsteinssonar hefur það markmið að að styrkja sagnfræðistúdenta og kandídata í sömu grein til að rannsaka og vinna að ritum um sérstök efni sem varða sögu Íslands eða efni sem tengist henni náið. 
 
Rannsókn Gunnars Marels fjallar um stjórnkerfi einveldis á Íslandi á árunum 1662-1683. Allt frá 19. öld hafa sagnfræðingar fjallað um Kópavogsfundinn 1662 á þann veg að þar hafi Íslendingar bæði samþykkt einveldi Friðriks III Danakonungs og samið við fulltrúa hans, Henrik Bjelke, um að halda stjórnkerfinu í sama fari og það var áður. Í MA-ritgerð sinni kannar Gunnar Marel hvort þessi mótsögn eigi við rök að styðjast. Fram hafa komið vísbendingar um veigamiklar stjórnkerfisbreytingar strax á fyrstu árunum eftir samþykkt einveldisskuldbindingarinnar. Má sjá þær meðal annars í hvernig skipað var í embætti landþingsskrifara og lögmanna, hvernig innheimtu aukaskatta var háttað og breytingum á fyrirkomulagi einokunarverslunarinnar. Einnig verður þeirri kenningu varpað fram að Henrik Bjelke hafi í raun orðið amtmaður yfir Íslandi árið 1662 og að Christian Müller hafi því ekki verið sá fyrsti til að gegna því embætti árið 1688. Þróun einveldisins á Íslandi verður einnig skoðuð í samhengi við gang mála í öðrum ríkjum Danakonungs, Danmörku sjálfri, Noregi og Færeyjum. Sá samanburður mun vonandi varpa ljósi á hvort Ísland hafi notið sérstöðu eða fylgt sömu þróun og hinir hlutar konungsríkisins.
 
Sagnfræðisjóður Björns Þorsteinssonar var stofnaður árið 1986 af Guðrúnu Guðmundsdóttur, ekkju dr. Björns Þorsteinssonar, og dóttur þeirra, Valgerði Björnsdóttur.
 
Björn Þorsteinsson fæddist 20. mars 1918 og lést 6. október 1986. Hann starfaði við kennslu í gagnfræða- og menntaskólum og í Háskóla Íslands. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um Íslandssögu sem allar eiga það sammerkt að vera vekjandi og glæsilega skrifaðar. Meðal verka Björns má nefna: Íslenzka þjóðveldið (1953), Íslenzka skattlandið (1956), Ævintýri Marcellusar Skálholtsbiskups (1965), Ný Íslandssaga (1966), Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld (1969), Enska öldin í sögu Íslands (doktorsritgerð 1970), Tíu þorskastríð 1415-1976 (1976), Íslenzk miðaldasaga (1978), Á fornum slóðum og nýjum (ritgerðasafn 1978) og Island (1985). Auk þess liggja eftir Björn útgáfur á verkum annarra, Íslendingasögum og ljóðum. Þá hafði hann forgöngu um útgáfu heimildasafna og gaf m.a. út eitt bindi af Íslenzku fornbréfasafni (XVI 1952-59). Björn var forseti Sögufélagsins og ritstjóri tímarits þess, Sögu, um margra ára skeið. Einnig hafði hann forystu um stofnun annarra félaga og naut sín hvað best sem brautryðjandi og leiðtogi á meðal samstarfsmanna.
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Stjórn sjóðsins skipa Sverrir Jakobsson, prófessor og formaður stjórnar, Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus, og Guðmundur Jónsson prófessor.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is