Háskóli Íslands

Rannsókn á einelti og ofbeldi á fyrri tíð styrkt

Rannsókn sem miðar að því að varpa ljósi á einelti og ofbeldi á fyrri tíð hefur hlotið styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar við Háskóla Íslands. Styrkhafi er Marín Árnadóttir, meistaranemi í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild á Hugvísindasviði  Háskóla Íslands. Heildarupphæð styrksins nemur 1,2 milljónum króna.  
 
Í rannsóknarverkefninu verður einstaklingsbundið einelti og ofbeldi í íslensku samfélagi 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar tekið til skoðunar eins og það birtist í sögum af „sérkennilegu“ fólki. Í margvíslegum gerðum þjóðlegs fróðleiks, eins og heimildaflokkurinn nefnist, kemur fram ákveðið samskiptamynstur sem virðist hafa verið sterkur hluti íslenskrar alþýðumenningar á þessum tíma þar sem oft var illa farið með „óvenjulegt“ fólk.
 
Þessar heimildir veita því innsýn inn í félags- og menningarlegar aðstæður í fortíðinni þar sem hvers kyns ofbeldi, einelti og áreitni fékk að viðgangast gagnvart jaðarsettum einstaklingum. Rannsóknartilgáta verkefnisins er sú að „menning ofbeldis“ eða „eineltismenning“ hafi þrifist á Íslandi á fyrri tíð og verið hluti af viðurkenndum frásögnum – skemmtisögum – af jaðarsettu fólki. Tilraun verður gerð til að afbyggja þessar sögur, greina undirliggjandi merkingu þeirra og þær ástæður sem lágu að baki þeim menningarbreytum sem hvöttu til eineltis og ofbeldis gagnvart viðkvæmustu hópum samfélagsins. Marín nýtur leiðsagnar Sigurðar Gylfa Magnússonar, prófessors í Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, og Sólveigar Ólafsdóttur, doktorsnema í sagnfræði.
 
Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður með veglegri peningagjöf Margaretar og Bents 25. september árið 2001. Árið 2007 bættu þau hjón um betur og lögðu til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Sjóðurinn er einn þriggja sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hafa Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild, en hún er jafnframt formaður stjórnar, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræðum við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, og Gunnar E. Finnbogason, prófessor í kennslufræði, námskrárfræði og siðfræði á Menntavísindasviði.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is