
Gabriel Malenfant, Hugvísindi
Meginviðfangsefni rannsóknarinnar snýst um mikilvægi „villts“ landslags og ósnortinna víðerna fyrir menningu og sjálfsmynd þjóða, þá sérstaklega hvernig þetta mikilvægi birtist á siðferðilegan hátt sem grundvöllur þeirra menningarlegu og félagslegu gilda sem tengjast – eða sprottin eru af – samskiptum manns og náttúru. Í seinni hluta rannsóknarinnar verður sjónum einkum beint að því hvaða áhrif stórvægilegar breytingar á villtri náttúru af manna völdum (t.d. vegna loftslagshlýnunar) gætu haft á gildismat og sjálfsmynd þjóða.
Beitt verður fyrirbærafræðilegum aðferðum við rannsóknina. Annars vegar í gegnum sjálfstæðar athuganir á upplifun náttúrulegs landslags og hins vegar í gegnum eigindleg viðtöl, bæði við Íslendinga og erlenda ferðamenn, um upplifun þeirra á slíku landslagi. Ritgerðin tengist tveimur yfirstandandi og viðameiri rannsóknum á íslensku landslagi og mun að hluta til nýta sér gögn frá þeim.
Leiðbeinendur: Sigríður Þorgeirsdóttir, dósent í heimspeki við hugvísindadeild Háskóla Íslands, og Þorvarður Árnason, náttúrufræðingur og forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði.