Háskóli Íslands

Saga Dana á Íslandi rannsökuð - Styrkur veittur til rannsóknarverkefnis um Dani á Íslandi frá 1900 til 1970

Í dag hlaut Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku við Háskóla Íslands, styrk upp á 70 þúsund danskar krónur sem samsvara tæplega 1,7 milljónum íslenskra króna úr sjóði Selmu og Kays Langvads. Styrkurinn er veittur til rannsóknarverkefnisins „Á mótum danskrar og íslenskrar menningar. Danir á Íslandi 1900-1970“ sem unnið er í samvinnu Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla.

Sjóðurinn Selma og Kay Langvads Legat var stofnaður við Háskóla Íslands með peningagjöf hjónanna Selmu, fæddrar Guðjohnsen, og Kays Langvads verkfræðings árið 1964. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur. Í stjórn sjóðsins sitja Sören Langvad, Hafliði P. Gíslason prófessor og Kristín Ingólfsdóttir rektor.

Rannsóknin er þverfagleg og beinist að því að kanna sögu Dana sem búsettir voru á Íslandi frá aldamótunum 1900 fram til 1970. Um aldamótin 1900 bjuggu nokkur hundruð Danir á Íslandi sem voru áhrifamikill hópur í íslensku þjóðlífi, einkum í verslun. Rannsókninni er ætlað að leiða í ljós hvaða áhrif þessir Danir höfðu á menningu, efnahag og samfélag en jafnframt verður leitast við að draga fram hvernig íslenskt samfélag mótaði sjálfsmynd þeirra, viðhorf, félagslega stöðu og möguleika til að viðhalda og rækta danska menningu og tungu í framandi landi.
Gerð verður félagsleg greining á Dönum búsettum á Íslandi, samsetningu þeirra m.t.t. til aldurs, búsetu, hjúskaparstöðu og atvinnu. Kannað verður það menningarlega umhverfi sem Danir sköpuðu sér á Íslandi og gagnkvæm tengsl þeirra við meirihlutasamfélagið. Einnig verður kannað á hvaða sviðum íslensks samfélags Danir hösluðu sér völl og hver áhrif þeirra voru á íslenska menningu, atvinnulíf og stjórnmál. Loks verður í málvísindalegri rannsókn hugað að sérstöku tungutaki Dananna.

Margvíslegar heimildir verða nýttar s.s. manntalsgögn, einkaskjöl, ævisögur, skýrslur, tölfræðigögn og fjölmiðlaefni. Sérstök áhersla verður lögð á að taka viðtöl við Dani sem hafa verið búsettir lengi hér á landi og þannig mun verkefnið skapa frumheimildir í formi hljóð- og myndefnis.

Þrír aðilar standa að rannsókninni: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Institut for Nordiske Studier og Sprogvidenskab við Kaupmannahafnarháskóla. Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku, og Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, stjórna verkefninu í samvinnu við Erik Skyum-Nielsen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla. Þátttakendur auk þeirra eru Þóra Björk Hjartardóttir dósent, Christina Folke Ax, sjálfstætt starfandi fræðimaður, og Íris Ellenberger doktorsnemi.

Rannsóknin hefur einnig fengið styrk frá Rannís til þriggja ára.

 

Á myndinni eru Auður Hauksdóttir og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is