Háskóli Íslands

Sautján fá vilyrði fyrir styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum

Sautján nemendur og fræðimenn á fjölbreyttum fræðasviðum við Háskóla Íslands og japanska háskóla hlutu vilyrði fyrir styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands til þess að leggja land undir fót til náms og rannsókna í löndunum tveimur á skólaárinu 2021-2022. Samanlögð styrkupphæð úr sjóðnum nemur ríflega 15 milljónum króna.
 
Watanabe-styrktarsjóðurinn hefur í rúman áratug styrkt gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn grundvallast á fimm milljóna bandaríkjadala gjöf frumkvöðulsins og Íslandsvinarins Toshizo Watanabe til Háskóla Íslands, en um er að ræða eina stærstu peningagjöf sem einstaklingur hefur fært skólanum.
 
Auglýst var eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum í upphafi árs og bárust 26 umsóknir að þessu sinni, nokkru færri en undanfarin ár sem eflaust rekja má til Covid-19 faraldursins. Af þeim hlutu 17 vilyrði fyrir styrk og eru styrkþegar nú orðnir á annað hundrað frá upphafi. Greiðsla styrksins er háð því að viðkomandi geti ferðast milli landanna, en mikil höft hafa verið á ferðafrelsi vegna kórónuveirufaraldursins.
 
Hefð hefur verið fyrir því að úthluta styrkjum við hátíðlega athöfn í Hátíðarsal að viðstöddum stofnanda sjóðsins, Tozhizo Watanabe, en engin athöfn var haldin í ár sökum faraldursins.
 
Þau sem hlutu vilyrði fyrir styrk í þetta sinn eru: 
 
Nemendur Háskóla Íslands til náms í Japan
Halldóra Freygarðsdóttir, Helga Björg Helgadóttir, Hringur Árnason og Margrét Gunnarsdóttir Kvaran, öll grunnnemar í japönsku
 
Vísindamenn og framhaldsnemar við Háskóla Íslands styrktir til náms og rannsóknarferða til Japan
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, Stephanie Alice Matti, doktorsnemi í mannfræði, Diego Ignacio Toro Vivanco, MS-nemi í jarðfræði, Vivian Marissa Sinnen, MS-nemi í jarðfræði, og Yujie Tian, MA-nemi í alþjóðaviðskiptum
 
Japanskir nemendur til náms við Háskóla Íslands
Ayaka Mori og Mika Yamada frá Nagoya-háskóla, Hikari Nakatani frá Ritsumeikan-háskóla, Juri Kikuchi og Kazune Ishibashi frá International Christian University, Mashisho Kaneko frá Waseda-háskóla. Ryo Yanamaka, sem stefnir á meistaranám við Háskóla Íslands, og Yuki Minamisawa, sem er MA-nemi í miðaldafræði við Háskóla Íslands, hljóta einnig styrk.
 
Í stjórn Watanabe-styrktarsjóðsins sitja Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs Háskóla Íslands, sem jafnframt er formaður stjórnar, Toshizo Watanabe, stofnandi sjóðsins, og Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is