Háskóli Íslands

Sérfræðingur í hamfarafræðum heimsækir HÍ

Ana Maria Cruz, prófessor við Kyoto-háskóla og sérfræðingur í hamfarafræðum, heimsækir Háskóla Íslands dagana 1.-5. september og heldur erindi í tveimur málstofum.
 
Ana Maria, sem er hér á landi fyrir tilstilli Watanabe-styrktarsjóðsins við Háskóla Íslands, hyggst í heimsókn sinni leita samstarfs við íslenska vísindamenn sem sinna hamfararannsóknum, til að mynda í jarðskjálftafræði, auk þess sem hún hyggst kynna Alþjóðafélag um samhæfða áhættustýringu vegna hamfara (International Society for Integrated Disaster Management), en félagið starfar í Japan.
 
Í fyrri málstofunni, sem fer fram þriðjudaginn 2. september kl. 14.10 í stofu 101 í Lögbergi, hyggst Ana Maria kynna Alþjóðafélag um samhæfða áhættustýringu vegna hamfara sem stofnað var árið 2009  og er ætlað að vera þverfræðilegur vettvangur um rannsóknir í hamfarastjórnun. 
 
Í seinni málstofunni, sem fer fer fram miðvikudaginn 3. september kl. 13.20  í stofu 152 í VRII, mun Ana Maria segja frá rannsóknum í hamfarastjórnun við Kyoto-háskóla. Þar er sérstök áhersla lögð á rannnsóknir á áhrifum hamfara á ýmiss konar iðnað og þeim forvörnum sem hægt er að grípa til, til að draga úr slíkum áhrifum.
 
Sendiráðunautur Japans á Íslandi, Tatsukuni Uchida, mun einnig halda  erindi um hamfarastjórnun í Japan, hið fyrra frá sjónarhorni japönsku stjórnsýslunnar og hið síðara um hlutverk rannsókna til stuðnings hamfarastjórnunar. Mun hann deila reynslu Japana vegna hamfaranna í Fukushima árið 2011.
 
Til nánari upplýsingar
Náttúruhamfarir hafa valdið verulegum búsifjum á Íslandi. Íslendingar hafa hins vegar hvorki tekið mikinn þátt í alþjóðasamvinnu sem fer fram um samhæfða áhættustýringu innan Alþjóðafélags um samhæfða áhættustýringu í Japan né skrifað í tímarit félagsins, sem er kjörinn vettvangur til birtingar á vísindaniðurstöðum á þessu sviði. Í Japan er mikil færni í rannsóknum á þessu sviði og virkni mikil þar eð áhrifa frá flóðbylgjunni miklu sem þurrkaði út heilar byggðir í Japan árið 2011 gætir enn. 
 
Japanar hafa þegar sýnt verulegan áhuga á aukinni samvinnu við Íslendinga og boðið vísindamönnum til dvalar í rannsóknarstöðum, t. d. hefur íslenskur verkfræðiprófessor verið í gestaprófessorstöðu við Kyoto-háskóla í hlutastarfi undanfarin tvö ár. Ana Maria telur að aukið samstarf milli Íslands og Japans gæti skilað verðmætum rannsóknarniðurstöðum og hyggst hún m.a. heimsækja Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi og ráðleggja íslenskum vísindamönnum um rannsóknarsamvinnu í Japan.
 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is