Háskóli Íslands

Sex doktorsnemar í lyfjafræði fá viðurkenningar

Sex doktorsnemar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala við Háskóla Íslands. Þetta eru Blanca Lorenzo Veiga, Ólöf Gerður Ísberg, Pitsiree Praphanwittaya, Sankar Rathinam, Sebastian Björnsson og Unnur Arna Þorsteinsdóttir. Rannsóknir þeirra ná yfir mjög breitt svið innan lyfjafræðinnar, allt frá þróun nýrra aðferða til bættra sjúkdómsgreininga, örkjarnadreifum og nanóagnaferjum til lyfjaflutninga að leit nýrra lyfjasprota gegn Alzheimerssjúkdómi og efnasmíði bakteríuhemjandi peptíðafleiða.
Þetta er í tólfta sinn sem doktorsnemum í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum við Háskóla Íslands er veitt viðurkenning úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir. Heildarupphæð styrksins er 1,8 milljónir króna og fær hver styrkhafi fyrir sig 300.000 krónur.
 
Blanca Lorenzo Veig - Heiti doktorsverkefnis: Örkjarnadreifur til meðhöndlunar á sjúkdómum í bakhluta augans. 
Um verkefnið: Lyfjagjöf til bakhluta augans er mjög vandasöm og hefðbundnir augndropar hafa hingað til ekki verið heppileg lyfjaform til að meðhöndla sjúkdóma þar. Helsta orsökin er takmarkað aðgengi að bakhluta augans sem oftast skýrist af takmörkuðu magni lyfs sem hægt er að leysa upp í augndropa og mjög stuttum viðverutíma augdropa á yfirborði augans. Í þessu verkefni eru sýklódextrin, sem eru hringlaga fásykrungar, og fjölliður notaðar til að leysa bæði þessi vandamál, þ.e. að auka styrk lyfja í augndropum og búa til örkornadreifur sem hafa þann eiginleika að lengja viðverutíma lyfs við yfirborð augnslímhimnunnar og koma meira magni lyfja inn í bakhluta augans. Örkornadreifurnar byggjast bæði á örþyrpingum og örkyrnum og verkefnið snýst að miklu leyti um að búa til þessar dreifur og rannsaka eiginleika þeirra þannig að hægt sé að nýta þær í nýja gerð augndropa. 
 
Blanca lauk meistaraprófi í lyfjafræði frá Háskólanum í Santiago de Compostela á Spáni. Hún hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2016.
 
Ólöf Gerður Ísberg - Heiti doktorsverkefnis: Massagreining smásameinda í brjóstakrabbameinsvef. 
Um verkefnið: Mikil framþróun hefur átt sér stað við massagreiningu smásameinda sem hefur leitt til þróunar á nýrri greiningartækni fyrir krabbamein. Með hefðbundinni brjóstamyndatöku ber töluvert á ofgreiningum auk þess sem erfitt er að greina æxli á byrjunarstigi hjá ungum konum. Markmið verkefnisins er að bæta greiningaraðferðir fyrir brjóstakrabbamein með því að greina mynstur smásameinda í brjóstakrabbameinsvef. Í samstarfi við Imperial College í London hefur verið notast við nýja massagreiningatækni sem byggist á svokallaðri DESI-MSI myndgreiningu á vefjasneiðum. Þessi aðferð er m.a. notuð í skurðaðgerðum í London til nær-rauntíma aðgreiningar á æxlis- og normalvef. Í samstarfi við Meinafræðideild Landspítalans hefur verið notast við vefjasýni frá vel skilgreindum brjóstakrabbameinshópi m.t.t. meinafræðilegra þátta. Vonast er til þess að aðferðirnar geti aukið næmi í greiningu krabbameina og þar af leiðandi stytt biðtíma og aukið nákvæmni þegar ákveða á meðferð eftir aðgerð.
 
Ólöf Gerður lauk meistaraprófi í líffræði mannsins frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2014. Hún hóf doktorsnám árið 2017 við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
 
Pitsiree Praphanwittaya - Heiti doktorsverkefnis: Kínasahemlar í sýklódextrín nanóögnum til lyfjagjafar í augu. 
Um verkefnið: Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem mynda vatnsleysanlegar fléttur með mörgum torleysanlegum lyfjum. Nýlega hefur verið sýnt fram á að við vissar aðstæður hópa flétturnar sig saman og mynda svokölluð aggregöt, það er nanóagnir með þvermál á bilinu 20 til 3000 nm. Stærð agnanna stjórnast af eðlisefnafræðilegum eiginleikum lyfjanna, sýklódextrínsameindanna og ýmsum ytri aðstæðum. Sjúkdómar í bakhluta augans (svo sem sjónhimnu) eru ein helsta ástæða blindu. Þar sem mjög erfitt er að koma lyfjum í bakhluta augans er lyfjameðferð sjúkdóma í þeim hluta augans erfið. Markmið verkefnisins er að mynda nanóagnir sem innihalda vatnsleysanlegar fléttur lyfja og sýklódextrína. Nanóögnunum er komið fyrir í augndropum og droparnir verða prófaðir í kanínum.
 
Pitsiree lauk MS-prófi í lyfjafræði frá Silpakorn-háskólanum í Taílandi árið 2016. Hún hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands haustið 2016. 
 
Sankar Rathinam - Heiti doktorsverkefnis: Konjúgöt kítósans og náttúrulegra efna til að verjast sýkingum. 
Um verkefnið: Doktorsverkefni Sankars miðar að því að smíða nýjar afleiður af kítósani, sem er náttúruleg fjölliða unnin úr rækjuskel með bakteríudrepandi virkni, og rannsaka virkni þeirra gegn bakteríum. Í verkefninu verður sérstaklega beint sjónum að bakteríum sem mynda örveruþekju og valda þannig sýkingum sem er erfitt að meðhöndla. Sankar hefur nú þegar smíðað fjölda afleiða með mismunandi byggingu og sýnt fram á samband milli byggingar og virkni þeirra. Hann hefur einnig smíðað svokölluð kítósan-konjúgöt sem byggjast á því að tengja saman kítósan og náttúruleg bakteríudrepandi peptíð. Í þessum tilgangi hefur hann þróað nýjar aðferðir í svokallaðri smellefnafræði (e. click chemistry). Verkefnið er unnið í samstarfi og að hluta til við Kaupmannahafnarháskóla. Markmiðið er að nota efni sem Sankar hefur smíðað til að húða ígræðlinga og koma þannig í veg fyrir sjúkrahússýkingar sem tengjast ígræðlingum. 
 
Sankar lauk meistaraprófi í efnafræði frá Madurai Kamaraj háskólanum í Madurai á Indlandi árið 2010. Hann hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2017.
 
Sebastian (Oddsson) Björnsson – Heiti doktorsverkefnis: Leit að lyfjasprotum gegn taugahrörnunarsjúkdómum með tvíþætta virkni á bæði asetýlkólínesterasa og α7 nikótín asetýlkólín viðtaka. 
Um verkefnið: Alzheimerssjúkdómur (AD) er algengasta form taugahrörnunarsjúkdóma og tíðni hans eykst stöðugt með hækkandi aldri. Acetýlkólín er boðefni í heila og er magn þess lækkað hjá AD-sjúklingum. Alzheimerslyf á markaði eru flest svokallaðir asetýlkólínesterasa (AChE) hindrar, sem auka magn asetýlkólíns í blóði með því að draga úr niðurbroti þess. Gagnsemi þessara lyfja einna og sér er þó takmörkuð og mikil þörf fyrir öflugri lyf. Ný nálgun í lyfjaþróun gegn taugahrörnunarsjúkdómum er að þróa efni með margþætta virkni eða að gefa lyfjablöndur sem verka á einn eða fleiri viðtaka í heila. Svokallaðir nikótín asetýlkólín viðtakar (nAChRs) þykja lofa góðu í barátttunni við AD og markmið verkefnisins er að finna lyfjasprota með tvíþætta virkni gegn sjúkdómnum og nota til þess tölvuhermiaðferðir og virknimælingar. 
 
Sebastian lauk meistaraprófi í plöntulíffræði frá ETHZ í Zürich í Sviss árið 2015. Hann hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands í lok árs 2015.
 
Unnur Arna Þorsteinsdóttir - Heiti doktorsverkefnis: Þróun á magngreiningaraðferð með háhraðavökvaskilju tengda tvöföldum massagreini (UPLC-MS/MS) fyrir klíníska greiningu og eftirlit með lyfjameðferð sjúklinga með APRT-skort. 
Um verkefnið: Svokallaður Adenínfosfóríbósýltransferasa (APRT) skortur er sjaldgæfur og lýsir sér fyrst og fremst í myndun nýrnasteina og langvinnum nýrnasjúkdómi. Í dag er APRT-skortur greindur með smásjárskoðun á þvagi en sú aðferð er mjög háð reynslu þess sem framkvæmir rannsóknina. Markmið doktorsverkefnisins er að þróa hraðvirka og áreiðanlega magngreiningaraðferð fyrir APRT-skort með háþrýstivökvagreini tengdum svokölluðum tvöföldum massagreini (UPLC-MS/MS) með það að markmiði að bæta klíníska greiningu og eftirlit með lyfjameðferð sjúklinga. Líkur eru á að greiningaraðferðin muni bæta lífsgæði sjúklinga og draga verulega úr kostnaði vegna sjúkdómsins með því koma í veg fyrir alvarlega fylgikvilla APRT -korts sem eru langvinnur nýrnasjúkdómur, nýrnasteinasjúkdómur og lokastigsnýrnabilun.
 
Unnur Arna lauk meistaraprófi í líffræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2015. Hún hóf doktorsnám árið 2016 við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
 
Um styrktarsjóðinn
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
 
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.
 
Bent Scheving Thorsteinsson lést á Landspítalanum 7. janúar 2015 á 93. aldursári. Hann var einn af mestu velunnurum Háskóla Íslands og munu sjóðirnir sem hann stofnaði við háskólann halda minningu hans á lofti um ókomin ár.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is