Háskóli Íslands

Sex fengu styrki til rannsókna í jarð- og lífvísindum

Veittir hafa verið sex styrkir úr Eggertssjóði til rannsókna í jarð- og lífvísindum við Háskóla Íslands. Styrkirnir nema samtals 5,9 milljónum króna og voru afhentir við athöfn í Hátíðasal HÍ 23. nóvember sl.
 
Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á þeim sviðum.
 
Hildur Magnúsdóttir, nýdoktor við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði Keldum, hlaut styrk til sýnatöku á beitukóngum í Breiðafirði og til að greiða kostnað vegna birtinga greina.
 
Samþróun sníkjudýra og hýsla þeirra er mikilvægur drifkraftur líffræðilegs fjölbreytileika og sníkjudýr geta haft mikil áhrif á virkni vistkerfa. Rannsóknum á samspili sníkjudýra og hýsla í sjávarvistkerfum er ábótavant, sérstaklega í botnlægum vistkerfum. Í slíkum vistkerfum treysta sníkjudýr eins og ögður mikið á sjávarsnigla sem millihýsla, ekki síst stóra, langlífa snigla úr Buccinoidea-yfirættinni sem gegna mikilvægu hlutverki í sjávarvistkerfum sem rándýr, bráð og hýslar. 
 
Í þessari rannsókn verður samþróun mismunandi Buccinoidea-sjávarsnigla og ögðutegunda þeirra í Norður-Atlantshafi rannsökuð. Til að byrja með mun beitukóngur, Buccinum undatum, í Breiðafirði vera notaður til grundvallar og prófunar á rannsóknaraðferðum verkefnisins en útlits- og erfðabreytileiki hans á því svæði er afar mikill. Aðferðirnar verða síðan yfirfærðar á aðrar tegundir í Buccinoidea-yfirættinni í Norður-Atlantshafi með það að markmiði að skilgreina þær ögðutegundir sem nýta þær sem millihýsla og kortleggja þróunarfræðilegt og vistfræðilegt samspil hýsils og sníkils.  
 
Katrín Möller, nýdoktor við Læknadeild, hlaut styrk vegna rannsóknar á svokallaðri genatjáningu og DNA metýlun á taugafrumum.
 
Utangenaerfðakerfið er stór hópur prótína sem ýmist lesa, skrifa eða fjarlægja merki á erfðaefni fólks og histónum, sem eru prótín sem pakka niður erfðaefninu, og hafa með því víðtæk áhrif á genatjáningu frumna. Stökkbreytingar í þessum hópi prótína leiða nánast alltaf til taugaþroskaskerðingar í einstaklingum sem þær bera. Því er líklegt að utangenaerfðakerfið gegni mikilvægu hlutverki í taugaþroska en lítið er vitað með hvaða hætti. Miklar breytingar á genatjáningu fara fram við sérhæfingu og þroska taugafrumna. Minna er vitað um hvort og hvernig gen breyta um tjáningu ísóforma í þessu ferli, en ísóform eru mismunandi tegundir RNA-sameinda sem framleiddar eru af sama geni. Í þessu verkefni er ætlunin að nýta nýja raðgreinitækni (e. Nanopore sequencing) og nýtt taugafrumulíkan til að skoða hvort sérhæfingarferli taugafrumna feli í sér breytingar á tjáningu ísóforma og þá sérstaklega hvort gen úr utangenaerfðakerfinu breyti um ísóform við taugafrumuþroska. Niðurstöðurnar munu leiða til betri skilnings á utangenaerfðakerfinu og áhrifum þess á þroskaferli taugafrumna. 
 
Ingi Agnarsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut styrk til kaupa á búnaði og efni til rannsókna á lífríki hverasvæða á Íslandi en styrkurinn mun einnig gagnast við rannsóknir Inga á líffræðilegum breytileika á eyjum í Karíbahafi.
 
Á undanförnum áratug hafa rannsóknir Inga snúist að miklu leyti um líflandafræði Karíbahafsins, sem er þekkt fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Þar hefur hann skoðað smádýralíf, sérstaklega köngulær, og meginmarkmiðið er að komast að því hvernig dýr nema land á eyjum og hvað veldur því að svo margar tegundir hafa orðið til á þessum merka eyjaklasa. Ingi hyggst nú beina sjónum sínum að annars konar eyjum sem ekki standa í sjó heldur eru búsvæðaeyjur sem finna má á dreif í víðu ´hafi´ annarra búsvæða. Þar á hann við hverasvæði á Íslandi en þau mynda sérstök heit búsvæði fyrir alls kyns líffverur. Þar hafa hitabreytingar í umhverfinu til skamms tíma (veður og árstíðir) og til lengri tíma (ísaldir) minni áhrif en á öðrum búsvæðum í lífríkinu. Lífríki þessara ´hitaeyja´ er lítið þekkt og er ætlunin að rannsaka það á mun yfirgripsmeiri hátt en áður hefur verið gert. 
 
Haseeb Randhawa, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut styrk til kaupa á hugbúnaði til að greina DNA-breytileika í sníkjudýrum í fiskum.
 
Rannsóknir Haseebs beinast að samanburði á aðferðum til að greina fiskistofna og vistgerðir fiska í hafinu við Ísland. Með greiningu á samfélögum sníkjudýra fiska, breytileika í DNA fiskitegundanna, ásamt lögun og efnasamsetningu kvarna er stefnt að því að greina hvort um ólíka stofna sé að ræða innan fiskitegundanna. Slíkar upplýsingar má nýta við fiskveiðistjórnun. Núna er unnið að greiningum á tegundasamsetningu sníkjudýra meðal mismunandi vistgerða þorska og einnig í ýsu, kola og steinbít frá svæðum norðaustur og suðvestur af Íslandi. Styrkurinn frá Eggertssjóði verður nýttur til kaupa á hugbúnaði til að greina DNA-raðir og efnasamsetningu kvarna en það eru steinar sem finnast í haus fiska og nýtast m.a. til aldursgreininga á þeim. 
 
Angel Ruiz Angelo, dósent við Jarðvísindadeild, fékk styrk til kaupa á svokölluðum CT-nemum til að greina umhverfisþætti í grennd við neðansjávarhveri vegna rannsókna á dreifingu svifþörunga í Ísafjarðardjúpi.
 
Jarðhiti er þekktur á nokkrum stöðum á landgrunni Íslands en rannsóknir á upptökum og eðli hans hafa verið takmarkaðar í gegnum tíðina. Jarðhitasvæðið út af Reykjanesi, innst í Ísafjarðardjúpi, er sérstakt að því leyti að þar sameinast jökulvatn frá Drangajökli ísöltu grunnvatni jarðhitakerfisins. Í samstarfi við Hafrannsóknarstofnun er markmiðið að rannsaka áhrif ferskvatns vegna aukinnar bráðnunar jökulsins á lífverur jarðhitasvæðisins. Sett verður út mælingadufl til þess að fylgjast með tímabundnum sveiflum í eðliseiginleikum og lífefnafræði sjávarins við jarðhitasvæðið. Gögnin munu m.a. nýtast til að meta áhrif árstíðabundinna magnsveiflna ólífrænna efna á framleiðni svifþörunga og annarra frumbjarga lífvera svæðisins.  
 
Ívar Örn Benediktsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun, hlaut styrk til aldursgreininga á jökulgörðum á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum.
 
Nýlegar rannsóknir sýna að setlög og landform á Norðausturlandi endurspegla legu og virkni fornra ísstrauma í íslenska ísaldarjöklinum á tilteknu kuldaskeiði fyrir 12.900–11.700 árum. Þá stóð rönd jökulsins rétt utan við strönd Norðausturlands en rétt innan við ströndina rúmum þúsund árum síðar (fyrir 10.400 árum). Inn til landsins, á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum, eru víða jökulgarðar sem benda til að hörfun ísaldarjökulsins á nútíma (sl. 11.700 ár) hafi gerst í skrefum. Má þar nefna Skessugarð og Fiskidalsgarð og garða sem kenndir eru við Búrfellsstig og Þorláksmýrastig. Markmið þessa verkefnis er að greina aldur þessara jökulgarða með svokallaðri geimgeislunaraðferð. Tengingar aldursgreininga við landmótun auka þekkingu okkar á þróun íslenska ísaldarjökulsins og varpa ljósi á hversu ört hann hörfaði og virkni ísstrauma minnkaði á tímum hlýnandi loftslags. Niðurstöður verkefnisins nýtast við að bæta líkön um hnignun íslenska ísaldarjökulsins og auka þess utan þekkingu okkar á jarðfræði og jarðgrunni rannsóknasvæðisins.
 
Um Eggertssjóð
Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.
 
Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1918. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. tengdum saumavélum. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau. 
 
Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið sett á fót Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgerðarmaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is