Háskóli Íslands

Sigurður Kristjánsson, barnalæknir hlýtur viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar barnalæknis

Úthlutað var í þriðja sinn úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar barnalæknis, 12. nóvember 2003.

Sigurður Kristjánsson barnalæknir hlaut viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar við Háskóla Íslands árið 2003. Sigurður, sem er sérfræðingur í ofnæmis- og ónæmisfræði barna, fær viðurkenninguna fyrir rannsókn á áhrifum kvefveiru af tiltekinni gerð á ónæmiskerfi barna.

Verðlaunaverkefni Sigurðar tengist rannsóknum á kvefveiru sem er árlegur gestur hér á landi og nefnist respiratory syncitial (RSV). Þótt flest börn fái væg einkenni kvefs þegar þau smitast af þessari veiru getur sýkingin orðið lífshættuleg börnum með bælt ónæmiskerfi. Sigurður hefur reynt að svara þeirri spurningu hvort börnum sem smitast af veirunni fyrir 6 mánaða aldur sé hættara við að fá astma eða aðra ofnæmissjúkdóma þegar þau eldast. Í rannsókninni var börnunum fylgt eftir til 7 ára aldurs og til samanburðar var rannsakaður hópur barna sem ekki hafði sýkst og barnahópur sem fengið hafði aðrar veirusýkingar.

Rannsókn Sigurðar hefur staðið yfir undanfarin fimm ár og að henni hefur komið starfsfólk Barnaspítala Hringsins, Rannsóknastofu í ónæmisfræði og veirufræði og Miðstöð heilsuverndar barna. Niðurstöður úr fyrsta áfanga rannsóknarinnar liggja nú fyrir og sýna meðal annars að sum barnanna sýndu sams konar ónæmisviðbrögð og eru ríkjandi hjá einstaklingum með ofnæmissjúkdóma þegar þau sýktust af kvefveirunni. Önnur gerðu það ekki. Þegar fram líða stundir verður ef til vill hægt að nota þessar niðurstöður til þess spá fyrir um það hvort ungbörn sem fá RSV-kvef og sýna ákveðna ónæmissvörun muni, þegar frá líður, þróa með sér astma eða annan ofnæmissjúkdóm.

Sigurður Kristjánsson er fæddur í Reykjavík og stundaði nám við Menntaskólann í Reykjavík. Hann lauk kandídatsprófi frá Læknadeild Háskóla Íslands 1982, stundaði í framhaldi af því nám í almennum barnalækningum hér á landi og í Svíþjóð og lauk doktorsnámi frá læknadeild Gautaborgarháskóla árið 1995. Sigurður hefur um árabil rannsakað ýmsa þætti ofnæmis og astma. Fyrri rannsóknir hans tengjast mælingum á boðefnum í blóði og þvagi barna með ofnæmissjúkdóma – sérstaklega astma. Hann hefur einnig rannsakað áhrif lyfjagjafar á astma hjá ungum börnum. Sigurður er yfirlæknir á bráðamóttöku barnasviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Hann er kvæntur Önnu Daníelsdóttur tannlækni og eiga þau eina dóttur og tvo syni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is