Háskóli Íslands

Søren Langvad, Jónatan Þórmundsson og Sigurður Líndal kjörnir heiðursdoktorar við HÍ

Á Háskólahátíð í dag var lýst kjöri þriggja heiðursdoktora við Háskóli Íslands. Þeir eru Søren Langvad, Jónatan Þórmundsson og Sigurður Líndal.

Søren Langvad hefur komið við sögu í fjölda stórframkvæmda á Íslandi á lýðveldistímanum og þannig tekið drjúgan þátt í uppbyggingu atvinnuveganna og eflingu lífsgæða hérlendis. Í framkvæmdasögu okkar kemur nafn Sørens fyrir aftur og aftur, ýmist sem verkfræðingur við framkvæmdirnar eða sem stjórnarformaður samsteypa sem að verkinu stóðu. Nefna má Írafoss og Steingrímsstöð, Grímsá og Mjólká, Þorlákshöfn og Njarðvíkurhöfn, Búrfell og Vatnsfell, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Ráðhús Reykjavíkur, Blöndu og Hrauneyjar, Hvalfjarðargöng og Sultartanga sem verkefni sem Søren kom að.  Søren Langvad fæddist 9. nóvember 1924 á Frederiksbergi í Danmörku, sonur Selmu Þórðardóttur Guðjohnsen og Kay Langvad.

Søren kom fyrst til Íslands 13 ára gamall þegar faðir hans Kay vann við byggingu Ljósafossvirkjunar. Árið 1940 fluttist hann til Reykjavíkur með foreldrum sínum og bræðrum en faðir hans vann þá að byggingu hitaveitunnar í Reykjavík. Søren Langvad varð stúdent frá Háskóla Íslands með sérstöku leyfi árið 1943 og innritaðist í verkfræðideild Háskóla Íslands sama haust og lauk fyrrihlutaprófi þaðan árið 1945. Að því búnu hélt hann til Danmerkur til frekara náms og lauk síðarihlutaprófi í byggingarverkfræði frá Danmarks Tekniske Højskole árið 1948.

Jónatan Þórmundsson fæddist 19. desember 1937. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1964 og stundaði síðan framhaldsnám í lögfræði og afbrotafræði við háskólann í Berkeley í Kaliforníu.

Sigurður Líndal fæddist 2. júlí 1931. Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1959. Áður hafði hann lokið BA-prófi í latínu og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sigurður stundaði framhaldsnám í réttarsögu við Kaupmannahafnarháskóla og síðar við Rheinische Friedrich Wilhelms Universität í Bonn. Hann lauk kandídatsprófi í sagnfræði frá heimspekideild Háskóla Íslands árið 1968.

Søren Langvad

Søren Langvad hóf starfsferil sinn sem verkfræðingur við Írafossvirkjun, þar sem hann starfaði fyrir Fosskraft sem var samsteypa E. Pihl og Søn og sænsks fyrirtækis.  Árið 1971 tók Søren við framkvæmdastjórn E. Pihl og Søn A/S og varð síðar aðaleigandi fyrirtækisins. Undir stjórn hans varð fyrirtækið eitt af öflugri verktakafyrirtækjum á Norðurlöndum. Af óbilandi kjarki hefur hann ráðist í hvert stórvirkið af öðru í Danmörku, Færeyjum og Íslandi, frá Jamaica í vestri til Bangladesh í austri, frá Station Nord í norðri til Lesotho í suðri. Af staðfastri trú á Íslandi hefur hann markað djúp spor í framfarasögu þjóðarinnar. Þrátt fyrir langa búsetu erlendis, hefur hans íslenska hjarta ávallt slegið heim. Ávallt hefur mikill fjöldi íslenskra verkfræðinga gegnt lykilstöðum í fyrirtækjum Sørens, ekki síst hjá Ístaki sem hann stofnaði ásamt föður sínum og fjórum Íslendingum árið 1971. Þannig hefur hann á langri starfsævi alið upp stóran hóp verkfræðinga og verið þeim fyrirmynd að dugnaði og áræði.

Søren hefur verið falinn fjöldi trúnaðarstarfa. Hann var um árabil í stjórn og formaður Dansk-Islandsk Samfund og situr nú í stjórn námssjóðs I.C. Møllers hjá Verkfræðingafélagi Íslands. Árið 1964 stofnaði Kay Langvad, faðir Sørens, styrktarsjóð Selmu og Kay Langvad við Háskóla Íslands til að efla menningartengsl Íslands og Danmerkur. Sjóðurinn hefur boðið sérfræðingum á ýmsum sviðum að miðla upplýsingum á milli landanna. Að jafnaði hefur verið veitt árlega úr sjóðnum til íslenskra og danskra vísindamanna. Fyrsta styrkinn hlaut þáverandi þjóðminjavörður Kristján Eldjárn, síðar forseti Íslands.

Søren Langvad hefur hlotið ýmsar viðurkenningar, meðal annars verið sæmdur Stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, er Riddari af Dannebrog, og árið 1998 var hann gerður að heiðursfélaga Verkfræðingafélags Íslands. Af þessum sökum telur Háskóli Íslands sér það sæmdarauka að heiðra Søren Langvad með nafnbótinni doctor technices honoris causa.

 

Ljósmynd: Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Søren Langvad, Sigurður Líndal og Jónatan Þórmundsson.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is