Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema í hjúkrunarfræði

Tveir doktorsnemar í hjúkrunarfræði hafa hlotið styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Styrkhafarnir eru Kristín Þórarinsdóttir og Margrét Gísaldóttir, báðar MS í hjúkrunarfræði. Heildarupphæð styrkjanna nemur einni milljón króna. Þetta í sjötta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en hann var stofnaður við Háskóla Íslands í júní árið 2007.

 

Doktorsrannsókn Kristínar Þórarinsdóttur hefur það meginmarkmið að afla þekkingar um hvernig notkun heilsufarstengds sjálfsmats mótar þátttöku sjúklinga í endurhæfingu og hjálpar þeim til að öðlast vellíðan og takast á við erfiðleika í daglegu lífi. Heilsufarstengt sjálfsmat er starfsaðferð sem Kristín hefur þróað í samstarfi við hjúkrunarfræðinga í endurhæfingu. Matið er notaðvið endurhæfingu innan þriggja heilbrigðisstofnana á Íslandi. Í rannsókninni verður byggt á hugmyndafræði notendamiðaðrar nálgunar  og kenningum um eðli umönnunar sem endurspeglast í starfsháttum fagstétta. Rannsóknaraðferðin er eigindleg þar sem rannsakandi fylgist með því hvernig sjálfsmatið er notað í daglegu starfi. Fylgst er með daglegu lífi þátttakenda í rannsókninni og viðtöl tekin við þá. Einnig eru venjur, gildismat og siðir skoðaðir á vinnustað þátttakenda. Þannig er leitast við að skilja sjónarhorn þátttakenda, bæði starfsmanna og sjúklinga, og hvaða atriði þeir telja að skipti mestu máli í endurhæfingu. Notkun heilsufarstengds sjálfsmats hefur ekki verið rannsökuð áður með þessum hætti og getur rannsóknin nýst við frekari þróun sjálfsmats.

 

Í doktorsransókn Margrétar Gísladóttur hefur verið leitast við að kanna árangur meðferðarsamræðna við fjölskyldur unglinga/ungs fólks með átröskun (A) eða ADHD (B). Þátttakendur voru foreldrar unglinga/ungs fólks á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) og Dag- og göngudeild Hvítabands. Í rannsókn A náði meðferðin yfir fjóra mánuði og samanstóð af sex hóptímum. Rannsókn B stóð yfir í tvo mánuði og samanstóð af þremur hóptímum (8-10 foreldrar í senn) og tveimur foreldraviðtölum. Niðurstaða rannsóknarinnar segir til um árangur á einkennum sjúkdóms, áhrif stuðnings foreldra, virkni í fjölskyldu og hvernig sjúkdómurinn getur drottnað yfir fjölskyldulífinu. Í rannsókn A kom fram að viðhorf foreldra og álag skiptir miklu máli fyrir einstakling sem tekst á við átröskun og getur haft marktæk áhrif á einkenni sjúkdómsins. Niðurstöðurnar munu nýtast fagaðilum á göngu- og innlagnadeildum við að bjóða upp á gagnreynda heilbrigðisþjónustu fyrir fjölskyldur barna og unglinga með átröskun eða með ADHD.

 

Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum sjóðsins. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Rannsóknasjóðurinn er fyrst og fremst styrktur með sölu minningarkorta og gjafafé.
                             

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is