Háskóli Íslands

Styrkir til eflingar íslenskri tungu

Fjórir styrkir hafa verið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til eflingar íslenskri tungu. Styrkhafarnir eru Eiríkur Rögnvaldsson prófessor, Höskuldur Þráinsson  prófessor, Kristján Jóhann Jónsson dósent og Jón G. Friðjónsson, prófessor emeritus. Þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildarupphæð styrkja 7,5 milljónum króna.

Styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2013 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða. Í erfðaskrá sinni arfleiddi Áslaug Háskóla Íslands að fasteigninni að Bjarkargötu 12 í Reykjavík til minningar um foreldra sína. Jafnframt ánafnaði hún háskólanum 25% af öllum bankainnstæðum og andvirði verðbréfa í hennar eigu. Stofnframlag sjóðsins nam samtals 120 milljónum króna.

Um styrkhafa og verkefni þeirra

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið (eirikur@hi.is). Verkefni Eiríks miðar að því að þróa námsefni og hugbúnað fyrir kennslu í íslenskri máltækni sem er efnislega sambærilegt við það sem kennt er við bestu háskóla heims en tekur einnig mið af sérstöðu íslenskunnar.

Fjölmargir erlendir háskólar nota svokallað NLTK-kerfi (Natural Language Toolkit, http://nltk.org) við kennslu í máltækni og skyldum greinum. Með aðstoð NLTK geta nem¬end-ur fljótt byrjað að leysa hagnýt máltækniverkefni. Námið verður þá áhugavert og skil¬virkt vegna þess að ekki þarf að verja löngum tíma í undirstöðuatriði áður en nemendur geta leyst raunveruleg vandamál. Verkefnið snýst annars vegar um að þróa kennsluefni á íslensku sem tengir NLTK við íslenskar aðstæður og hins vegar að þróa hugbúnaðarviðbætur við NLTK sem auðvelda notkun á íslenskum málföngum, t.d. málheildum, orðalistum og mál¬vinnslutólum.

Samhliða þróun námsefnisins verða hlutar þess notaðir í námskeiðinu Inngangi að formlegri málfræði við Háskóla Íslands á haustmisseri 2015 og í námskeiði um málvinnslu árið 2016.

Höskuldur Þráinsson, prófessor í íslensku nútímamáli við Hugvísindasvið (hoski@hi.is). Höskuldur hlaut styrk til þess að gefa út bókina „Skrifaðu bæði skýrt og rétt – Fræðileg skrif, ritrýni og ritstjórn“ en hún er hugsuð sem handbók og kennslubók.

Bókin er annars vegar ætluð þeim sem vilja stunda fræðileg skrif af einhverju tagi eða þurfa þess og hins vegar þeim sem þurfa að meta slík skrif eða leiðbeina um þau. Þetta geta t.d. verið háskólanemar, háskólakennarar, ritstjórar eða ritrýnar. Í bókinni er m.a. fjallað um skipulag og framsetningu fræðilegs efnis, bæði greina og bóka, mismunandi markmið fræðilegra skrifa, fræðilega röksemdafærslu, heimildanotkun, gagnrýninn lestur og fleira.

Gerð er grein fyrir ólíkum kröfum til tímaritsgreina, námsritgerða og fræðibóka og fjallað um ritstuld og einkenni hans. Einnig er leiðbeint um ráðstefnuútdrætti, styrkumsóknir, rannsóknaráætlanir og ýmiss konar ritrýni og mat á fræðilegum skrifum. Bókin varð til sem kennsluefni fyrir námskeið á háskólastigi og flestum köflum fylgja verkefni.

Kristján Jóhann Jónsson, dósent í íslensku við Menntavísindasvið (krjj@hi.is), hlýtur styrk til rannsóknarinnar „Íslenska sem námsgrein og kennslutunga“ þar sem kannað er hvaða þekkingu er miðlað og hvaða færni er byggð upp í námsgreininni íslensku í grunn- og framhaldsskólum.

Tungumálið mótar hugsun okkar og þekkingu. Skólastarf verður árangursríkt ef móðurmálið er öflugt og gerir okkur kleift að skilja og útskýra þær upplýsingar sem til okkar berast. Kennarar á öllum skólastigum þurfa að nota íslensku sem kennslutungu til að miðla þekkingu í vaxandi alþjóðavæðingu. Í rannsókninni er leitað svara við því hvað börn og unglingar læra um móðurmálið og hvernig íslensk hugsun og tunga dugir til þess að kenna og útskýra nýja og síbreytilega heimsmynd.

Heimsóttir eru skólar valdir með slembiúrtaki, fylgst með í kennslustundum og byggt á vettvangslýsingum og viðtölum. Könnunin er samstarfsverkefni íslenskukennara við Menntavísindasvið og Hugvísindasvið Háskóla Íslands og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Jón G. Friðjónsson, prófessor emeritus í íslensku við Hugvísindasvið (jonf@hi.is). Verkefni Jóns, „Allt á sinn stað“ (Íslandskort með staðarheitum ásamt forsetningum), felst í því að gera kort af Íslandi með þeim hætti að notandi eigi auðvelt með að afla upplýsinga um notkun forsetninga (og atviksorða ef þeim er að skipta) með algengustu staðarheitum (bæjum, kaupstöðum, kauptúnum, þorpum).

Með því að nýta tölvutækni nútímans til að kalla fram tiltekin atriði á Íslandskortinu, t.d. notkun forsetninga með staðarnöfnum sem enda á -fjörður, fæst nýstárlegt yfirlit sem ekki er aðgengilegt annars staðar. Íslandskort með forsetningum sem vísa til staðarheita er ætlað sem kennslugagn í efri bekkjum grunnskóla.

Um styrktarsjóðinn

Markmið Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar. Samkvæmt erfðaskránni skal nota sjóðinn til eflingar íslenskri tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands telur að koma muni að mestu gagni. Það skilyrði er sett að sjóðurinn verði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði.

Fyrst af öllu er sjóðnum ætlað að styrkja málefni er stuðla að eflingu íslenskrar tungu.

Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða tækja og búnaðar sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.  

Áslaug stundaði nám í lyfjafræði við Lyfjafræðingaskóla Íslands og verknám í Ingólfs Apóteki. Eftir útskrift sem aðstoðarlyfjafræðingur hélt Áslaug til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Danmarks Farmaceutiske Höjskole 1957. Áslaug starfaði lengst af í Reykjavíkur Apóteki og Lyfjabúð Breiðholts og lagði þar m.a. mikla rækt við lyfjafræðinema frá Háskóla Íslands sem komu til verknáms undir hennar handleiðslu. Í Lyfjabúð Breiðholts starfaði Áslaug með Ingibjörgu Böðvarsdóttur apótekara. Auk samstarfs í apótekinu skrifuðu þær mikið saman um sögu lyfjafræði og vildu hlúa að sögulegri vitund í samfélaginu. Þær voru enn fremur ötulir hvatamenn að útkomu Lyfjafræðingatals. Þá vann Áslaug merkilegt starf ásamt hópi lyfjafræðinga við að koma upp Lyfjafræðisafni við Neströð á Seltjarnarnesi. Áslaug starfaði í Íslensku esperanto-hreyfingunni í rúma þrjá áratugi og var lengi í stjórn Aúroro, esperanto-félags Reykjavíkur. Áslaug arfleiddi Náttúruverndarsamtök Íslands að sumarbústað sínum í landi jarðarinnar Hæðarenda í Grímsnesi auk 12,5% af öllum bankainnistæðum og andvirði verðbréfa sem hún lét eftir sig.

Við úthlutun styrkjanna 6. maí þakkaði Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, fyrir hönd skólans þá höfðinglegu gjöf sem Áslaug hefði ánafnað skólanum til minningar um foreldra sína. Kristín minntist Áslaugar og sagði að í öllum sínum störfum hefði henni látið betur að gefa en að þiggja. Hún sagði að lyfjafræðinemar hefðu slegist um að komast í starfsþjálfun á sumrin í apótekið til Áslaugar því henni hefði verið sérlega annt um stúdenta. Hún hefði lagt sig fram um að kenna þeim vönduð, fagleg vinnubrögð og að leggja rækt við íslenska tungu.  Áslaug hefði jafnframt lagt gífurlega mikið af mörkum í þágu Lyfjafræðingafélags Íslands og Lyfjafræðisafnsins á Seltjarnarnesi og hefði átt drjúgan þátt í að gera safnið að einu vandaðasta fagsafni á Íslandi.  

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Katrín Jakobsdóttir alþingismaður, sem jafnframt er formaður stjórnar, Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is