Háskóli Íslands

Styrkir til eflingar íslensku fjöltyngdra barna og foreldra þeirra

Tvö rannsóknarverkefni sem snerta þróun íslenskukennslu fyrir fjöltyngd grunnskólabörn og foreldra þeirra hljóta styrk úr Íslenskusjóðnum við Háskóla Íslands. Þetta er í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Heildarupphæð styrkja nemur tveimur milljónum króna.
 
Markmið Íslenskusjóðsins er að stuðla að því að íslenska verði áfram töluð á Íslandi og tilgangur hans að veita styrki til að efla vald á íslensku máli barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Sjóðurinn styrkir verkefni sem styðja við og efla notkun á íslensku máli, svo sem þróunarverkefni á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeið, bókaútgáfu, t.d. fjölmálabóka, heimasíðna, efnis fyrir snjalltæki og annars sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins.
 
Hermína Gunnþórsdóttir prófessor og Edda Óskarsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hljóta styrk fyrir rannsóknina „Þróun kennsluhátta og félagslegra tengsla fyrir nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli – safn aðferða sem reynst hafa vel í íslenskum skólum“.
 
Tilgangur hennar er að safna hugmyndum um árangursríkar aðferðir í kennslu fjölbreytilegra nemendahópa með það að markmiði að þróa kennsluaðferðir sem mæta þörfum nemenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og styðja þannig við nám þeirra. Fjölgun barna af erlendum uppruna í skólum landsins og innleiðing hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar hefur kallað á breyttar kennsluaðferðir sem taka m.a. mið af þessum nemendahópi en mikilvægt er að minnihlutahópar og jaðarsettir einstaklingar njóti jafnræðis á við aðra. Í gegnum starfendarannsókn með kennurum í þremur skólum er stefnt að því að þróa safn aðferða ásamt leiðbeiningum sem hægt verður að nota með nemendum á miðstigi grunnskóla. Niðurstöðurnar munu varpa skýrara ljósi á það hvaða aðferðir geta styrkt kennara í því að mæta námsþörfum þessa nemendahóps og nýtast með beinum hætti inn í skólastarfið.
 
Anna Katarzyna Wozniczka, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og verkefnastjóri í málefnum flóttamanna hjá sveitarfélaginu Árborg, Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í fjölmenningu hjá sveitarfélaginu Árborg, og Anna Linda Sigurðardóttir, deildarstjóri Fjölmenningardeildar í Vallaskóla, hljóta styrk til verkefnisins „Hagnýtt íslenskunámskeið fyrir foreldra barna með fjölmenningarlegan bakgrunn á grunnskólaaldri: Þróunarverkefni í Sveitarfélaginu Árborg.“
 
Markmið verkefnisins er að bjóða foreldrum grunnskólanema með fjölmenningarlegan bakgrunn í Sveitarfélaginu Árborg upp á ókeypis íslenskunámskeið. Þar munu þeir kynnast helstu hugtökum sem snúa að námi barna sinna og efla orðaforða sem tengist skólastarfi. Rannsóknir sýna að tungumálaörðugleikar geta hindrað þátttöku foreldra í skólastarfi og námi barna sinna og þeir geta jafnvel upplifað sig einangraða. Tilgangur verkefnisins er að efla vald og notkun á íslensku máli foreldra fjöltyngdra barna og styðja þannig við íslenskunám þeirra. Upplýsingum um íslenskukunnáttu foreldra verður safnað og viðhorf þeirra til námskeiðsins í upphafi og lok verkefnisins kannað.
 
Um sjóðinn
Íslenskusjóðurinn er stofnaður af Elsu Sigríði Jónsdóttur og Tómasi Gunnarssyni til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson.
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið sem jafnframt er formaður stjórnar, Samúel Lefever, dósent við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði, og Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 
Nánari upplýsingar um úthlutunina, sjóðinn og aðra sjóði í vörslu styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri styrktarsjóða og hollvina, helgab@hi.is, sími 899 8719.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is