Háskóli Íslands

Styrkir til eflingar íslenskunámi fjöltyngdra barna

Tvö verkefni sem miða að því að styðja íslenskunám fjöltyngdra barna hafa hlotið styrk úr Íslenskusjóðnum við Háskóla Íslands. Annað snertir rannsókn á notkun tungumálasmáforrits sem kennslutækis fyrir ung börn og hitt vinnslu rafræns verkefnaheftis með léttlestrarbók sem unnin er á grunni verðlaunabókarinnar Akam, ég og Annika. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og heildarupphæð styrkja nemur tveimur milljónum króna.
 
Markmið Íslenskusjóðsins er að stuðla að því að íslenska verði áfram töluð á Íslandi og tilgangur hans að veita styrki til að efla vald á íslensku máli barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Sjóðurinn styrkir verkefni sem styðja við og efla notkun á íslensku máli, svo sem þróunarverkefni á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeið, bókaútgáfu, t.d. fjölmálabóka, vefsíður, efni fyrir snjalltæki og annað sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins. 
 
Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, aðjunkt við Deild kennslu- og menntunarfræði Menntavísindasviðs HÍ, hlýtur styrk fyrir rannsóknarverkefnið „Moka Mera Lingua – námsmöguleikar barna af erlendum uppruna til íslenskunáms og krosstyngingar með tungumálasmáforriti“. 
 
Rannsókn Skúlínu Hlífar beinist að því að kanna tungumálanám 3-8 ára barna með smáforitinu Moka Mera Lingua þannig að þau geti tengt það eigin móðurmáli eða öðru tungumáli sem þau búa yfir. Fáar rannsóknir á krosstyngi (e. translanguaging) hafa verið gerðar hérlendis og er rannsóknin því mikilvæg til að kanna m.a. hvernig mæta megi betur þörfum barna af erlendum uppruna og auðvelda þeim að byggja upp samskiptahæfni á íslensku.
 
Moka Mera Lingua er verðlaunað smáforrit sem er ætlað að styðja börn í að læra nýtt tungumál, orðaforða daglegs lífs og framburð orða. Það sameinar leik og nám fyrir börn á skemmtilegan og fræðandi hátt í gegnum samskipti og leiki við sögupersónur smáforritsins. Mera Lingua er hannað af finnska fyrirtækinu Moilo og var gefið út í febrúar 2020. Í smáforritinu eru eftirfarandi tungumál í boði: arabíska (Levantín), kínverska (Mandarín), danska, enska, finnska, franska, þýska, íslenska, norska, rússneska, spænska og sænska. Fyrr í þessum mánuði kom forritið út á úkraínsku.
 
Rakel Edda Guðmundsdóttir, sagnfræðingur og ritstjóri, og Þórunn Rakel Gylfadóttir, rithöfundur og meistaranemi í ritlist við Háskóla Íslands, hljóta styrk til verkefnisins „Með öðrum orðum“.
 
Skáldsagan Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta í janúar síðastliðnum. Söguefni bókarinnar snertir á knýjandi málefnum á borð við loftslagsvána, flótta undan stríði og innflytjendur, fordóma, samkennd og vináttu. Allmargir grunnskólar landsins nýta sér bókina við kennslu á unglingastigi í íslensku og samfélagsfræði.
 
Til að koma til móts við sem flesta nemendur leggja Rakel Edda og Þórunn Rakel nú lokahönd á léttlestrarbók sem byggir á þeirri frumsömdu. Svo mæta megi betur þörfum skólasamfélagsins fyrir efni sem hvetur til íslenskunáms hljóta þær styrk til að semja verkefnahefti með léttlestrarbókinni sem þær munu vinna að í samvinnu við íslenskukennara á unglingastigi. Lögð verður áhersla á að efla orðaforða og færni í íslensku í ræðu og riti. Hvatt verður til  skapandi jafnt sem hagnýtrar notkunar á tungumálinu og fjölbreyttir miðlar samtímans nýttir. Hvatt verður til umræðna sem efla gagnrýna hugsun og meðvitund um mörg álitamál samtímans. Verkefnaheftið verður á rafrænu formi og öllum aðgengilegt á netinu. 
 
Um sjóðinn
Íslenskusjóðurinn er stofnaður af Elsu Sigríði Jónsdóttur og Tómasi Gunnarssyni til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson.
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið sem jafnframt er formaður stjórnar, Samúel Lefever, dósent við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði, og Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is