Háskóli Íslands

Styrkir til eineltisrannsókna

Úthlutað var úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar í dag. Styrki hlutu tveir nemendur við Háskóla Íslands, Esther Ösp Valdimarsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir.

Esther Ösp Valdimarsdóttir er meistaranemi í mannfræði við Háskóla Íslands með sérstakri áherslu á málefni ungs fólks. Esther Ösp hlaut styrk fyrir verkefnið Reiðar stelpur sem miðar að því að kanna hvort stúlkum sé síður en strákum kennt að fást við reiðitengdar tilfinningar og fá réttmæta útrás fyrir þær. Rannsóknin verður unnin í samstarfi við unglingsstúlkur í vinnuskóla en rannsókn sem þessi hefur ekki verið gerð áður á Íslandi.

Hjördís Sigursteinsdótir er í doktorsnámi í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknarverkefni hennar ber heitið Líðan og heilsa starfsfólks sveitarfélaga á Íslandi – Einelti á vinnustað. Rannsókn Hjördísar er hluti af stærra verkefni sem felur í meginatriðum í sér að kanna líðan og heilsu starfsmanna sveitarfélaga á tímum efnahagsþrenginga. Markmiðið með þeim hluta rannsóknar Hjördísar sem hlaut styrk er að skoða einelti, tíðni þess og gerendur yfr ákveðinn tíma og fylgjast með inngripum og hugsanlegum breytingum sem verða á árunum 2010-2012.

Markmið Styrktarsjóðs Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. Styrktarsjóðurinn var settur á fót 25. september 2001 og er einn þriggja sjóða sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is