Háskóli Íslands

Styrkir til MA nema til rannsókna á einelti

Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni auglýsir ásamt Styrktarsjóði Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar styrki til MA-nema í lögfræði, félagsráðgjöf og á Menntavísindasviði til að vinna að rannsóknarverkefni um einelti gegn börnum.

Styrktarsjóður Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar hefur veitt veglegan styrk til verkefnisins sem er unnið af Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni undir verkefnisstjórn Þórhildar Líndal forstöðumanns. Rannsóknin er unnin í samvinnu við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Um er að ræða heildstæða, þverfræðilega rannsókn á einelti gegn börnum á Íslandi. 
Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka einelti út frá sjónarhornum þriggja fræðigreina innan Háskóla Íslands. Rannsókninni er þannig ætlað að samræma og efla sérfræðiþekkingu á einelti og fá heildstæðari mynd af raunverulegri stöðu eineltismála í samfélaginu.

Styrkir verða veittir til þriggja meistaranema, sem hafa áhuga á að taka þátt í þessari rannsókn. Styrkfjárhæð til hvers meistaranema er kr. 300.000.

Auglýst er eftir:

  • Meistaranema í lögfræði við Lagadeild Háskóla Íslands. Verkefnið felst m.a. í því að skrifa meistararitgerð um einelti út frá sjónarhorni lögfræðinnar undir umsjón Hrefnu Friðriksdóttur, lektors við Lagadeild Háskóla Íslands. 
  • Meistaranema í félagsráðgjöf. Verkefnið felst m.a.í því að skrifa meistararitgerð um einelti út frá sjónarhorni félagsráðgjafar undir umsjón Halldórs S. Guðmundssonar, lektors við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.
  • Meistaranema á Menntavísindasviði. Verkefnið felst í því að skrifa meistararitgerð um einelti út frá sjónarhorni menntavísinda undir umsjón Halldóru Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild Háskóla Íslands.

Meistaranemarnir sem hljóta styrk þurfa einnig að taka þátt í samstarfi sín á milli með reglubundnum hætti frá haustinu 2010 varðandi uppbyggingu og samhæfingu rannsóknarinnar. Ráðgefandi sérfræðingur er dr. Brynja Bragadóttir. Meistaranemarnir munu, ásamt ráðgefandi sérfræðingi og verkefnastjórn, vinna lokaskýrslu um heildarniðurstöður rannsóknarinnar, sem kynntar verða opinberlega haustið 2011.

Umsóknarfrestur er til 1. september 2010.

Nánar um Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is