Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á heilabilun, ADHD og áhrifum brjóstagjafar

Þrír styrkir hafa verið veittir úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur til doktorsrannsókna í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknunum er m.a. fjallað um umönnun fólks með heilabilun í heimahúsi, ávinning hugrænnar atferlismeðferðar fyrir einstaklinga með athyglisbrest og áhrif brjóstagjafar og mikilvægi hennar fyrir síðfyrirbura. Styrkhafar eru hjúkrunarfræðingarnir Margrét Guðnadóttir, Sylvía Ingibergsdóttir og Rakel B. Jónsdóttir. Heildarupphæð styrkjanna nemur 950.000 krónum. 
 
Doktorsrannsókn Margrétar Guðnadóttur, Bætt umönnun fólks með heilabilun í heimahúsi og stuðningur við aðstandendur, hefur það markmið að skoða hvernig fjölskyldur takast á við þær breytingar sem verða samfara því að einkenni um heilabilun koma fram. Auka á þekkingu og skilning á því hvers konar þjónusta og stuðningur þykir hjálplegur að mati einstaklinganna og styður við búsetu fólks heima. Sú þekking getur nýst í samstarfi heimaþjónustu og sérhæfðra þjónustueininga til að þróa og innleiða íhlutanir sem styðja við fjölskyldur einstaklinga með heilabilun. Rannsóknin miðast við íslenskar aðstæður en er jafnframt hluti alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar á umönnun einstaklinga með heilabilun. Rannsóknaraðferðin er fjölþætt og felst í viðtölum við lykilstarfsmenn þjónustunnar, tveggja ára vettvangsrannsókn á einstaklingum með heilabilun og fjölskyldum þeirra auk greiningar á lýðfræðilegum gögnum. Leiðbeinandi Margrétar er Kristín Björnsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Í doktorsnefnd sitja þau Christine Ceci, prófessor við Háskólann í Alberta í Kanada, Marit Kirkevold, prófessor við Háskólann í Ósló, Jón Snædal, klínískur prófessor, og Pálmi V. Jónsson prófessor, báðir við Læknadeild Háskóla Íslands. 
 
Doktorsrannsókn Sylvíu Ingibergsdóttur snýst um að kanna ávinning af hugrænni atferlismeðferð (HAM) fyrir einstaklinga með athyglisbrest (ADD) eða ofvirkni með athyglisbrest (ADHD). Lyfjameðferð hefur oft verið eina meðferðarúrræðið fyrir ungt fólk sem greinst hefur með ADD/ADHD. Hún gagnast hins vegar ekki hluta þessa hóps og lítið er vitað um árangur af hugrænni atferlismeðferð fyrir þá sem greindir hafa verið með ADD/ADHD. Skoðuð verða áhrif meðferðarinnar á einkenni þunglyndis, kvíða og ADD/ADHD og á viðhorf þátttakenda. Þekking sem af þessu leiðir gæti orðið til þess að líðan og lífsgæði ungs fólks með ADD/ADHD yrði betri. Í rannsókninni verður háskólanemendum sem greindir hafa verið með ADD/ADHD boðin hugræn atferlismeðferð. Ætlunin er að veita stutt inngrip fyrir þennan hóp, þ.e. HAM-hóptíma einu sinni í viku í sex vikur. Aðalleiðbeinandi Sylvíu er Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild. Í doktorsnefnd sitja, ásamt Erlu Kolbrúnu, Jóhanna Bernharðsdóttir lektor, Eiríkur Örn Arnarson prófessor, Merrie Jean Kaas prófessor, Eydís Kristín Sveinbjarnardóttir prófessor og Marta Kristín Lárusdóttir dósent. 
 
Doktorsrannsókn Rakelar B. Jónsdóttur hefur það markmið að skoða síðfyrirbura (34-36 vikur, 6 dagar) en það er hópur barna sem notið hefur aukinnar athygli innan vísindaheimsins að undanförnu þar sem í ljós hefur komið að hann glímir við aukna hættu á vandamálum og sjúkdómum, bæði til skamms og langs tíma, í samanburði við fullburða börn. Jafnvel þótt áhættan sé ekki eins mikil og hjá meiri fyrirburum eru áhrifin töluverð, bæði á fjölskyldur og heilbrigðiskerfið, en um 200 síðfyrirburar fæðast árlega á Íslandi. Brjóstagjöf er mjög mikilvægur liður í heilsu og velferð fyrirbura en rannsóknir benda til þess að hún sé mun minni hjá síðfyrirburum en fullburða börnum. Markmið verkefnisins er að lýsa brjóstagjafamynstri síðfyrirbura, meta tengsl milli fæðugjafamynsturs, svefns og gráts og þroska síðfyrirbura og líðan mæðra. Jafnframt að bera kennsl á áhrifaþætti brjóstagjafar hjá síðfyrirburum í samanburði við fullburða börn. Gögn eru fengin úr langtímaeftirfylgnirannsókn á síðfyrirburum og mæðrum þeirra og viðtölum við mæður. Rannsóknin mun auka þekkingu á framgangi og áhrifaþáttum brjóstagjafar hjá síðfyrirburum með það markmið að bæta stuðning við brjóstagjöf hjá þessum hópi barna. Leiðbeinandi Rakelar er Renée Flacking, prófessor í barnahjúkrun við Dalarna University í Svíþjóð, og umsjónarkennari Helga Jónsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
 
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur eflir rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum hans. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
 
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is