Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á sjálfsvígum og endalokum þrælaverslunar Dana

Tveir styrkir hafa verið veittir úr Sagnfræðisjóði Björns Þorsteinssonar. Styrkhafar eru Emil Gunnlaugsson, meistaranemi í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla, og Jón Kristinn Einarsson, meistaranemi í Evrópusögu við Columbia-háskóla í New York. Styrkirnir voru veittir á Íslenska söguþinginu 2022. Heildarstyrkupphæð nemur 500 þúsund krónum.
 
Tilgangur sjóðsins er að styrkja framhaldsnema í sagnfræði til náms og kandídata í sömu grein til að rannsaka og vinna að ritum um sérstök efni sem varða sögu Íslands eða nátengdu efni. 
 
Rannsókn Emils Gunnlaugssonar fjallar um sjálfsvíg á Íslandi á 18. og 19. öld. Sjálfsvíg á Íslandi eru stórt vandamál og einn alvarlegasti heilbrigðisvandinn í heiminum. Lengi vel stóðu fordómar í vegi fyrir umræðu um sjálfsvíg og rannsóknum á þeim. Það hefur breyst og hin síðari ár hefur málaflokkurinn fengið talsverða athygli, sem hefur þó einkum beinst að samtímanum. Sjálfsvíg í fortíð – fyrir 20. öld – hafa hins vegar litla sem enga athygli fengið. Verkefnið er því nýstárlegt og markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig yfirvöld á 18. og 19. öld tóku á sjálfsvígstilfellum, það er meðferð þeirra fyrir dómi. Sjálfsvíg voru fram á seinni hluta 19. aldar stranglega bönnuð samkvæmt lögum og gátu falið í sér að fórnarlambið væri grafið utan kirkjugarðs og eignir þess gerðar upptækar með þeim afleiðingum að erfingjar gátu einskis vænst. Lögin kölluðu á að yfirvöld rannsökuðu nákvæmlega hvert einasta sjálfsvígstilfelli þar sem sumar aðstæður fórnarlambs, eins og andleg veikindi, þýddu að brotið var ekki endilega talið refsivert. Því eru í sumum tilvikum til ýmsar heimildir sem varpa margvíslegu ljósi á aðstæður þeirra sem tóku líf sitt. 
 
Rannsókn Jóns Kristins Einarssonar fjallar um afnám þrælaverslunar í Danmörku. Landið varð fyrst Evrópuríkja til þess að leggja niður þrælaverslun árið 1792 og tók sú ákvörðun gildi árið 1803. Sagnfræðingar hafa hingað til útskýrt ákvörðunina með hliðsjón af efnahagslegum hagsmunum en í ritgerðinni verður hugmyndafræðilegt samhengi ákvörðunarinnar kannað. Öflug hreyfing um afnám þrælaverslunar hafði sprottið upp í Englandi nokkrum árum áður og verður einkum kannað hvernig breskar hugmyndir um afnám þrælahalds voru túlkaðar í Danmörku. Færð verða rök fyrir því að ríkjandi efnahagsstefna (e. political economy), sem lagði áherslu á landbúnaðarumbætur og dró dám af þýskum kameralisma, hafi stuðlað að því að Danir urðu fyrstir til þess að afnema þrælaverslun sína. Jafnframt er vonast til þess að rannsóknin varpi ljósi á sögu Íslands, en einungis örfáum árum áður, 1786, höfðu sömu ráðamenn og lögðu niður þrælaverslunina ákveðið að binda enda á einokunarverslun Dana á Íslandi.
 
Um sjóðinn
Sagnfræðisjóður Björns Þorsteinssonar var stofnaður árið 1986 af Guðrúnu Guðmundsdóttur, ekkju dr. Björns Þorsteinssonar, og dóttur þeirra, Valgerði Björnsdóttur.
 
Björn Þorsteinsson fæddist 20. mars 1918 og lést 6. október 1986. Hann starfaði við kennslu í gagnfræða- og menntaskólum og í Háskóla Íslands. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um Íslandssögu sem allar eiga það sammerkt að vera áhugverðar og vandvirknislega skrifaðar. Meðal verka Björns má nefna: Íslenzka þjóðveldið (1953), Íslenzka skattlandið (1956), Ævintýri Marcellusar Skálholtsbiskups (1965), Ný Íslandssaga (1966), Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld (1969), Enska öldin í sögu Íslands (doktorsritgerð 1970), Tíu þorskastríð 1415-1976 (1976), Íslenzk miðaldasaga (1978), Á fornum slóðum og nýjum (ritgerðasafn 1978) og Island (1985). Auk þess liggja eftir Björn útgáfur á verkum annarra, Íslendingasögum og ljóðum. Þá hafði hann forgöngu um útgáfu heimildasafna og gaf m.a. út eitt bindi af Íslenzku fornbréfasafni (XVI 1952-59). Björn var forseti Sögufélagsins og ritstjóri tímarits þess, Sögu, um margra ára skeið. Einnig hafði hann forystu um stofnun annarra félaga og naut sín hvað best sem brautryðjandi og leiðtogi á meðal samstarfsmanna.
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Stjórn sjóðsins skipa Sverrir Jakobsson, prófessor og formaður stjórnar, Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi, og Guðmundur Jónsson prófessor.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is