Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna ungra vísindamanna við Háskóla Íslands

Fimm ungir vísindamenn við Háskóla Íslands hafa hlotið styrki úr Eggertssjóði til rannsókna og tækjakaupa er tengjast rannsóknum. Styrkirnir nema samtals fimm milljónum króna. Styrkirnir voru afhentir við athöfn á Háskólatorgi 24. júní.
 
Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á sviðum jarð-  og lífvísinda.
 
Styrkþegar, sem allir hafa hafið störf við Háskóla Íslands á síðustu misserum, eru:
 
Bryndís Marteinsdóttir, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til rannsókna á því hvaða áhrif létt beitarálag sauðfjár og skordýraafrán hefur á uppbyggingu plöntusamfélaga í frumframvindu. Í frumframvindu eru vaxtarskilyrði plantna oft erfið og auk þessa er fræframboð oft takmarkandi fyrir landnám og dreifingu þeirra. Því má ætla að beit og afrán sem dregur úr hæfni plantna og minnkar fræframboð hafi töluverð áhrif á gróðurframvindu. Þrátt fyrir að algengt sé hérlendis að beita lítt gróið land hafa mjög fáar rannsóknir beinst að því hvaða áhrif slík beit hefur á einstakar plöntur eða á gróðursframvindu. Einnig hefur áhrif skordýraafráns á frumframvindu lítið verið rannsakað.¬
 
Guðrún Valdimarsdóttir, lektor í sameinda- og frumulíffræði við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til rannsóknaverkefnis þar sem markmiðið er að varpa ljósi á samspil mikilvægra vaxtarþátta í nýæðamyndun manna. Líkanið sem notað verður í rannsókninni eru stofnfrumur úr fósturvísum manna (svokallaðar hES-frumur) sem eru fjölhæfar og geta sérhæfst í hvaða frumugerð líkamans sem er. Hægt er að sérhæfa þær í æðaþelsfrumur og þannig unnt að fá ómetanlega innsýn inn í sameindaferla sem stjórna nýæðamyndun sem aftur getur aukið skilning á æðasjúkdómum og krabbameini.

Kirsten Marie Westfall, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, fær styrk til rannsókna á stórþara og hrossaþara þar sem ætlunin er að afla betri upplýsinga um aðgreiningu stofna innan tegundanna við Ísland og dreifigetu þeirra. Stórþari og hrossaþari (ættkvísl Laminaria) eru lykiltegundir á grunnsævi við Ísland. Þeir gegna mikilvægu hlutverki við hringrás kolefnis og sem búsvæði fyrir ungviði ýmissa nytjafiska. Uppskipting búsvæða vegna nytja gæti minnkað erfðabreytileika innan tegundanna þar sem búast má við takmörkuðum erfðafræðilegum tengslum milli stofna vegna lítillar dreifigetu. Notkun á næstu kynslóðar raðgreiningu til rannsóknar á stofnerfðamengi hrossaþara við Vesturland sýndi merki um óvenjumikið genaflæði og breytileika í samanburði við suðlæg útbreiðslumörk tegundarinnar við Frakkland. Til að fá betri upplýsingar um aðgreiningu stofna innan tegundanna við Ísland og dreifigetu þeirra er frekari rannsókna þörf. Rannsókn á útlitsgerðum tegundanna og erfðabreytileika þeirra gefur einnig færi á að kanna mögulega kynblöndun milli tegundanna sem væri fyrsta skráða tilvikið um kynblöndun innan ættkvíslarinnar.

Stefán Sigurðsson, dósent í lífefnafræði við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur styrk til rannsóknarverkefnis þar sem hlutverk prótínsins ALKBH3 verður skoðað í viðgerð á DNA. Markmið verkefnisins er að auka skilning á DNA viðgerðarferlum sem eru nauðsynlegir öllum frumum. Gallar í þessum ferlum auka líkur á myndun krabbameina og hafa einnig áhrif á framvindu sjúkdómsins. Þessir viðgerðarferlar eru nokkuð vel skilgreindir og fjölmörg prótín taka þátt í þeim, bæði í greiningu DNA-skemmda og einnig í viðgerðinni sjálfri. ALKBH3-prótínið tekur þátt í viðgerð þar sem alkýlerandi skemmdir hafa orðið á DNA-sameindinni. Hingað til er þetta eina þekkta virkni ALKBH3 en nýlegar niðurstöður Stefáns og samstarfsfélaga benda til þess að prótínið geti líka tekið þátt í viðgerð á tvíþátta DNA-rofi, en gallar í viðgerð á tvíþátta rofi er mjög vel þekktur áhættuþáttur krabbameina. Markmið verkefnisins er því að rannsaka hlutverk ALKBH3 í viðgerð á þessu rofi.

Sæmundur Ari Halldórsson, nýdoktor við Norræna eldfjallasetrið við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, hlýtur styrk til þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarleiðangi til jarðefnafræðirannsókna á eldfjöllum í austurhluta Úganda í Afríku. Þótt eldvirkni þar sé að jafnaði ekki mikil í samanburði við aðra hluta afríska rekbeltisins er fjölbreytileiki storkubergstegunda þar einn sá mesti á jörðinni. Þessi armur afríska sigdalsins hefur að mestu orðið út undan í rannsóknum á jarðefnafræði storkubergstegunda í Austur-Afríku og verður meginmarkmið þessa rannsóknarleiðangurs að bæta úr því. Verkefnið tengist nýlegum kenningum um fjölda möttulstróka undir sigdalum og hefur umtalsvert gildi fyrir skilning okkar á hinni jarðfræðilegu umgjörð Íslands og myndun þeirra storkubergstegunda sem hér finnast. Jafnframt verður jarðhitavatn á svæðinu rannsakað í samvinnu við jarðhitahóp Jarðvísindastofnunnar til að auka skilning á samspili vatns og bergs á eldvirkum svæðum sem einkennast af tillögulega lágum hitastigli,
þykku steinhveli og takmarkaðri gliðnun.
 
Um Eggertssjóð
Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.

Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1918. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. varðandi saumavélar. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau.
 
Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið komið upp Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgerðarmaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is