Doktorsnemarnir Goraksha Khose og Ismael Abo Horan, sem starfa við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala við Háskóla Íslands. Rannsóknir þeirra snúa að þróun nýrra lyfjasprota gegn berklum og lyfjagjöf til bakhluta augans með augndropum sem byggja á nýrri tækni.
Þetta er í sextánda sinn sem veittar eru viðurkenningar úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum. Heildarupphæð styrksins er 800.000 krónur og fær því hvor styrkhafi 400.000 krónur.
Doktorsverkefni Goraksha Khose gengur út á að þróa nýja lyfjasprota gegn berklum sem orsakast af Mycobacterium tuberculosis. Á heimsvísu eru berklar gríðarlega stórt heilbrigðisvandamál en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að um 1.250.000 manns hafi látist af völdum þeirra í fyrra og 10,8 milljónir nýrra tilfella greinst á sama tíma. Vaxandi tíðni ónæmra og fjölónæmra berklastofna kallar á sérstakar aðgerðir og frekari lyfjaþróun til að stemma stigu við útbreiðslu sjúkdómsins.
Verkefnið snýst um þróun nýrra fenazín-lyfjasprota með fyrirmynd í náttúruefnunum iodinin og myxin. Fenazín eru náttúruleg sýklalyf sem fjölmargar bakteríur mynda meðal annars til að hefta vöxt annarra baktería í samkeppni og til að auka smithæfni sýkils. Nánar tiltekið verða fjórar mismunandi fenazín hliðstæður (e. analogs) búnar til og efnabyggingar þeirra þróaðar áfram með það markmið að auka virkni gegn sýkli, draga úr eituráhrifum á heilbrigðar frumur og betrumbæta eðlisefnafræðilega eiginleika, svo sem leysni í vatni. Við mat á virkni efnanna sem búin verða til verða þau prófuð gegn næmum og ónæmum berklum, krabbameinsfrumulínum úr mönnum og heilbrigðum frumulínum. Mest lofandi efnin verða einnig rannsökuð nánar í sebrafiskum til að meta betur virkni- og eituráhrif.
Leiðbeinandi Goraksha er Elvar Örn Viktorsson, lektor við Lyfjafræðideild HÍ. Auk hans sitja í doktorsnefnd þau Pål Rongved, prófessor í lyfjaefnafræði við Óslóarháskóla, Lars Herfindal, prófessor við deild klínískra vísinda við Háskólann í Bergen, Tone Tønjum, prófessor í örverufræði við Oslóarháskóla, og Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.
Goraksha lauk MS-prófi frá Pune-háskóla á Indlandi árið 2006. Eftir nám starfaði hann við lyfjarannsóknir í fyrirtækjunum Eurofins-Advinus og Biocon Bristol-Myers Squibb. Árið 2022 hóf Goraksha doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Fyrsta vísindagrein Goraksha og samstarfsaðila var birt í European Journal of Medicinal Chemistry í upphafi árs 2025.
Doktorsverkefni Ismaels Abo Horan fjallar um lyfjagjöf til bakhluta augans með augndropum sem byggjast á nýrri tækni. Sjúkdómar í bakhluta augans eru að mestu meðhöndlaðir í dag með því að sprauta lyfi inn í augað vegna þess að venjulegir augndropar geta ekki komið nægilegu magni af lyfi þangað. Bæði er það vegna þess litla magns lyfs sem kemst fyrir í augndropum og svo er viðverutími þeirra á yfirborði augans mjög takmarkaður. Ismael þróar augndropa sem innihalda Simvastatin og Atorvastatin til að meðhöndla aldurstengda augnbotnahrörnun. Annars vegar er um að ræða augndropatækni byggða á sýklódextrin-þyrpingum og hins vegar nýja tækni sem byggist á sjálfmyndandi örfleytum sem auka stöðugleika þessara lyfja.
Leiðbeinandi Ismaels er Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild. Auk hans sitja í doktorsnefndinni dr. Carmen Alvarex Lorenzo, prófessor við Háskólann í Santiago de Compostela á Spáni, dr. Sara Nicoli, dósent við Háskólann í Parma á Ítalíu, og dr. Paolo Gasco, sérfræðingur hjá NanoVector í Tórínó á Ítalíu.
Ismael lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Háskólanum í Damascus í Sýrlandi árið 2016 og meistaraprófi í nanótækni frá Háskólanum í Barcelona árið 2021. Ismael hóf doktorsnám við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2022.
Um styrktarsjóðinn
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem veitir verðlaun fyrir ýmis störf á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem styður rannsóknir á einelti.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.