Háskóli Íslands

Styrkir veittir til rannsókna sem tengjast stoðkerfissjúkdómum

Þrír styrkir til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma hafa verið veittir úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur. Styrkhafarnir eru Eyþór Örn Jónsson læknir, Sigurbergur Kárason, yfirlæknir svæfinga- og gjörgæsludeildar á Landspítala og dósent við Háskóla Íslands, og Björn Guðbjörnsson, sérfræðingur í gigtlækningum og prófessor við Háskóla Íslands. Heildarupphæð styrkjanna nemur 1,5 milljónum króna og er þetta í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Rannsóknir Eyþórs Arnar Jónssonar beinast að árangri á liðskiptaaðgerðum á mjöðmum og hnjám á Landspítalanum en þær eru mjög algengar. Í liðskiptaaðgerðum felst að gervilið úr málmi og plasti er komið fyrir í stað liðs með umtalsverðar skemmdir. Mjaðmasjúkdómar í æsku geta valdið liðskemmdum og í sumum tilvikum reynist nauðsynlegt að framkvæma liðskiptaaðgerð. Slitgigt er hins vegar algengasta ástæðan fyrir liðskiptaaðgerðum. Í rannsókninni verður sjónum beint að faraldsfræði og árangri liðskiptaaðgerða á Landspítalanum á árunum 2003-2005 og er ætlunin að nýta niðurstöðurnar til að bæta meðferðina enn frekar. Í rannsókninni verður einnig kannað í hversu miklum mæli fólk með gervilið þarf að gangast undir aðra aðgerð á gerviliðum síðar (enduraðgerð) og leitað að áhættuþáttum vegna þess. Þá verður jafnframt könnuð tíðni snemmbúinna enduraðgerða eftir aðgerðir sem framkvæmdar voru árið 2013. Annars staðar á Norðurlöndum hefur faraldsfræði og árangur liðskiptaaðgerða verið greindur skipulega um árabil. Það er talið hafa stuðlað að betri árangri í aðgerðum og fækkað þeim tilvikum þar sem fólk með gervilið þarf að gangast undir aðra aðgerð á gerviliðum síðar vegna vandamála sem koma upp. Þannig má spara fjármuni og draga úr óþægindum sem fylgja enduraðgerðum. Eyþór Örn útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2008 og leggur nú stund á sérnám í bæklunarlækningum við Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg.

Rannsókn Sigurbergs Kárasonar snýr að mjaðmarbrotum og er markmiðið að kanna lýðfræðileg sérkenni sjúklingahópsins, s.s. aldur, kyn, búsetu, undlirliggjandi sjúkdóma o.fl, ásamt ferli hans gegnum sjúkrahúsið og horfum í kjölfarið. Mjaðmarbrot er algengur áverki meðal aldraðra sem getur valdið alvarlegum fylgikvillum, leitt til fötlunar og jafnvel andláts. Einnig verða margir sem voru sjálfbjarga fyrir brotið háðir aðstoð og komast jafnvel ekki aftur heim af sjúkrahúsi eftir það. Mjaðmarbrot geta því haft verulegar afleiðingar fyrir einstaklinga og á sama tíma á samfélagið í heild en í hverjum mánuði gangast u.þ.b. 25 sjúklingar undir aðgerð vegna slíks brots á bæklunarskurðdeild Landspítalans í Fossvogi. Mikilvægt er að verkferlar varðandi móttöku, verkjastillingu, svæfingu, aðgerð, umönnun og útskrift þessa sjúklingahóps sé í góðum skorðum til að tryggja sem bestar batahorfur. Gögnum um alla sjúklinga, sem lögðust inn á Landspítalann í Fossvogi með mjaðmarbrot árið 2011, verður safnað og þeim fylgt eftir til loka árs 2012. Í rannsókninni munu fást upplýsingar um sjúklingahópinn, ferli hans í gegnum sjúkrahúsið og horfur eftir áverkann, þ.e. hversu margir útskrifast og komast heim, dvelja áfram á stofnun eða látast. Niðurstöðurnar bjóða upp á samanburð við sjúkrahús í öðrum löndum og má nýta sem gæðavísi við verkferla vegna mjaðmarbrota og aðgerða vegna þeirra í framtíðinni. Sigurbergur Kárason er yfirlæknir svæfingar- og gjörgæsludeildar Landspítala og dósent við Háskóla Íslands.

Verkefni Sigurbergs hófst árið 2012 sem rannsóknarverkefni fyrir Kristófer A. Magnússon, þriðja árs nema í læknisfræði. Kristófer vann við verkefnið ásamt leiðbeinendum og birti upplýsingar á rannsóknardögum læknanema um þá sjúklinga sem lögðust inn á LSH vegna mjaðmarbrots fyrstu þrjá mánuði ársins 2011. Niðurstöðurnar af þessari rannsókn gáfu sterka vísbendingu um hve mjaðmarbrot hafa alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinginn og eru krefjandi fyrir samfélagið. Höfundum þótti því fyllsta ástæða til að víkka verkefnið út og fylgja eftir öllum þeim sem komu vegna mjaðmarbrots á LSH árið 2011. Kristófer hefur því haldið áfram vinnu við að safna upplýsingum og vinna úr þeim.im.

Rannsókn Björns Guðbjörnssonar, „Virkjun beinvaxtavísa í kjölfar liðskiptaaðgerða“, miðar að því að auka þekkingu á því hvað knýr áfram bólguviðbrögð í líkamanum og þar með að auka skilning manna á bólguferlinu við langvinna gigtarsjúkdóma. Fyrri rannsóknir þar að lútandi byggjast fyrst og fremst á einstaklingum með langvinna bólgusjúkdóma eða  ýmis bráðaveikindi. Við þær aðstæður eru bólguhvatar margvíslegir og aðrir þættir, eins og lyf, sýkingar eða fjöláverkar, auk fjölbreyttra undirliggjandi sjúkdóma, geta haft mismunandi áhrif á framvindu bólguferilsins. Því hefur verið reynt að staðla umhverfisþætti með því að nota liðskiptaaðgerðir á mjöðm vegna slitgigtar sem rannsóknarmódel. Rannsóknir hafa staðfest að sjúklingar sem gangast undir liðskiptaaðgerð fá kröftugt bólgusvar sem ónæmiskerfið hægir á og stöðvar á fáeinum dögum eftir aðgerð. Fyrri rannsóknir Björns og félaga hafa beinst að margvíslegum þáttum ónæmiskerfisins, þ.e. hvernig það bregst við í upphafi bólgu og hver séu áhrif sykurstera á bólgur. Markmið þessa rannsóknaráfanga er að kanna nánar þá ferla sem liggja að baki gerviliðalosi með því að skoða hvernig beinhvatar/beinhemlar eða svokallaðir beinvaxtavísar virkjast í kjölfar liðskipaaðgerða. Björn Guðbjörnsson er sérfræðingur í gigtarrannsóknum og prófessor við Háskóla Íslands.

Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga en sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmalið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingar. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918) árið 2005 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is