Háskóli Íslands

Styrkur til að rannsaka reynslu pólskra grunnskólanema af einelti

Lara Wilhelmine Hoffmann, nýdoktor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar við Háskóla Íslands til rannsóknar á einelti. Styrkurinn nemur tæplega einni milljón króna.

Rannsóknarverkefnið beinist að upplifun og reynslu nemenda af pólskum uppruna í dreifbýli sem hafa orðið fyrir einelti í íslenskum grunnskólum. Julia Anna Cygert, meistaranemi í rannsóknatengdu meistaranámi í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri, mun taka viðtölin og skrifa meistararitgerð byggða á niðurstöðunum. Julia er sjálf innflytjandi og búsett á Austurlandi.

Markmið rannsóknarinnar er að auka skilning á hvernig einelti og félagsleg útilokun tengjast líðan, inngildingu og búferlaflutningum innflytjenda í íslensku skólakerfi. Með því að beina sjónum að reynslu ungs fólks í litlum bæjarfélögum í dreifbýli fást mikilvægar upplýsingar um þær sérstöku áskoranir og tækifæri sem þetta unga fólk stendur frammi fyrir í nánasta umhverfi. Ætlunin er að taka viðtöl við 15 einstaklinga sem hafa reynslu af einelti í grunnskóla og einnig verður rætt við fimm foreldra barna sem hafa upplifað einelti til að fá innsýn í upplifun foreldranna af íslensku menntakerfi og þjónustu fyrir fjölskyldur af erlendum uppruna. 

Um sjóðinn
Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður með veglegri peningagjöf Margaretar og Bents hinn 25. september árið 2001. Árið 2007 bættu þau hjón um betur og lögðu til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Sjóðurinn er einn þriggja sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hafa Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Brynhildur G. Flóvenz, dósent emeríta frá Lagadeild, en hún er jafnframt formaður stjórnar, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræði við Félagsfræði- mannfræði og þjóðfræðideild, og Kristján Ketill Stefánsson, lektor í kennslufræði við Deild kennslu- og menntunarfræða.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is