Háskóli Íslands

Styrkur til doktorsnema í heimspeki

Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar auglýsir eftir umsóknum um styrk úr sjóðnum árið 2020. Styrkurinn er veittur til doktorsnema í heimspeki við Háskóla Íslands.
 
Tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum stúdenta í framhaldsnámi í heimspeki. Að þessu sinni verður styrkur veittur til nemanda í doktorsnámi í heimspeki.
 
Umsóknarfrestur um styrkinn er 20. apríl 2020.
 
Heildarupphæð styrks er kr. 200.000.
 
Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram: 
1.    Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang.
2.    Helstu atriði úr ferilskrá ásamt upplýsingum um námsárangur.
3.    Heiti rannsóknarverkefnis (doktorsverkefnis), markmið og vísindalegt gildi.
4.    Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk.
5.    Veigameiri lýsing á rannsóknini, ein blaðsíða að hámarki.
6.    Áætlun um  námsframvindu.
7.    Nöfn, símanúmer og netföng tveggja meðmælenda.
 
Hámarkslengd umsóknar er þrjár síður. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum umsóknum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.
 
Gert er ráð fyrir að styrkþegi haldi fyrirlestur á vegum Félags áhugamanna um heimspeki, eigi síðar en tveimur árum eftir að honum er veittur styrkurinn.
 
Áætlað er að úthlutað verði á vormánuðum 2020.
 
Val styrkhafa er í höndum sjóðsstjórnar en hana skipa Björn Þorsteinsson, prófessor í heimspeki og formaður stjórnar, Eyjólfur Kjalar Emilsson, prófessor í heimspeki, og Frida Vestergaard, dóttir Godtfreds stofnanda sjóðsins og barnabarn Brynjólfs Bjarnasonar.
 
Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is
 
Frekari upplýsingar um sjóðinn, styrkveitingu og úthlutun er að finna á heimasíðu sjóðsins á sjóðavef Háskóla Íslands eða hjá Helgu Brá Árnadóttur, verkefnisstjóra Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 525-5894. 
 
Um sjóðinn
Heimspekisjóður Brynjólfs Bjarnasonar var stofnaður árið 1990 við Háskóla Íslands af Elínu Brynjólfsdóttur (1928-2001) og eiginmanni hennar, Godtfred Vestergaard (1929-2018). Elín Brynjólfsdóttir var dóttir Brynjólfs Bjarnasonar, fyrrverandi menntamálaráðherra og heimspekings, og Godtfred var danskur verkfræðingur af íslenskum ættum og forstjóri fyrirtækisins Vestergaard Company A/S.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is